Skemmtiferðaskip afbóka ferðir vegna innviðagjalds

Gjaldið er farið að hafa áhrif á bókunarstöðu fram á …
Gjaldið er farið að hafa áhrif á bókunarstöðu fram á næsta ár. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmörg skemmtiferðaskip hafa afboðað komur sínar til landsins á árinu og á því næsta vegna álagningar innviðagjalds á skemmtiferðaskip sem tók gildi um áramótin. Stjórnarformaður Cruise Iceland segir að breytingarnar hafi skort fyrirvara og að innleiða hefði þurft gjaldið í skrefum. 

Þann 1. janúar tóku við ýmsar breytingar vegna innflutnings og gjaldtöku vegna farþega og ferðamanna í skemmtiferðaskipum landsins. Meðal annars tók nýtt innviðagjald, í stað gistináttaskatts, gildi þar sem lagt er gjald á hvern farþega um borð í skemmtiferðaskipi í millilandasiglingum á meðan skipið dvelur í höfn hér á landi eða annars staðar á tollsvæði ríkisins. 

Gjaldið nemur 2.500 krónum fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skipið dvelur á tollsvæði ríkisins. 

Skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum greiða áfram gistináttaskatt en fyrirkomulag gjaldtökunnar breytist og verður fyrir hvern farþega. 

Sigurður Jökull Ólafsson stjórnarformaður Cruise Iceland.
Sigurður Jökull Ólafsson stjórnarformaður Cruise Iceland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kostnaðurinn 440 milljónir fyrir eitt skipafélag

Sigurður segir að gjaldið hafi talsverð áhrif á skipafélög sem hyggjast koma til landsins. 

Tekur hann dæmi um að fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu sem komi til landsins með skemmtiferðaskipi þurfi skipafélagið að greiða 10.000 krónur í innviðagjald fyrir hvern byrjaðan sólarhring innan tollsvæðis ríkisins. Talan getur því undið hratt upp á sig fyrir skipafélögin og nefnir Sigurður dæmi um stórt skemmtiferðaskip sem þurfi að greiða 440 milljónir í innviðagjald fyrir farþega sína. 

Lögin um breytingarnar voru samþykkt þegar starfsstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar voru enn að störfum, aðeins rúmum mánuði áður en þær áttu að taka gildi, eða 18. nóvember síðastliðinn.

Alla jafna eru skemmtiskipaferðir bókaðar með 12-18 mánaða fyrirvara og er skipafélögum ekki heimilt að senda bakreikning á farþega sína eftir að ferðin hefur verið bókuð. Þar sem breytingarnar tóku gildi með svo skömmum fyrirvara fellur kostnaðurinn á skipafélögin. 

Skilar 1,9 milljarði í ríkissjóð á árinu

Áætlað er að gjaldið skili 1,9 milljarði í ríkissjóð á þessu ári sem er ætlað til að fjármagna innviðauppbyggingu í landinu. 

Sigurður segir nauðsynlegt að tekjurnar af innviðagjaldinu renni beint til innviðauppbyggingar á svæðinu sem gjaldið er tekið og að stjórn Cruise Iceland geri kröfu til núverandi stjórnvalda um slíkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert