„Þarna eru frægar eldstöðvar“

Fjöllin hafa vakað. Ljósufjöll á Snæfellsnesi í drifhvítum vetrarbúningi sem …
Fjöllin hafa vakað. Ljósufjöll á Snæfellsnesi í drifhvítum vetrarbúningi sem þau þó þurfa ekki til að vera ljós yfirlitum þar sem þau eru gerð úr kísilríku líparíti sem veitir þeim bjartleitt yfirbragð innan um íslenska basaltið dökka. mbl.is/Árni Sæberg

„Snæfellsnesið allt er auðvitað gosbelti sem inniheldur Snæfellsjökul og Helgrindur og fjöllin þar í grennd á miðju nesinu og svo Ljósufjallakerfið sem nær frá Berserkjahrauni að vestan og alla leið gegnum Ljósufjöllin og yfir að Hreðavatni, svo þetta er svolítið langt kerfi.“

Þetta segir Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur og prófessor emeritus, í samtali við Morgunblaðið, inntur álits á straumum og stefnum hinna innri afla móður jarðar þar á svæðinu.

Kvikuinnskot líklegt og vöktun aukin

mbl.is og Morgunblaðið hafa undanfarna mánuði fjallað um kvikuinnskot sem fræðimenn Veðurstofu Íslands telja að líklega hafi átt sér stað á miklu dýpi undir Grjótárvatni.

Þá gerði Veðurstofan grein fyrir því að hún hefði hækkað vöktunarstig á svæðinu auk þess sem unnið væri að nýju vöktunarskipulagi fyrir svæðið.

Margir ungir gígar

Prófessorinn heldur áfram:

„Snæfellsneskerfin þrjú hafa lítið verið virk og aðeins eitt gos þar síðan land var numið, það er á Mýrunum. Þarna eru frægar eldstöðvar eins og Eldborg og fleiri,“ segir Haraldur og bætir því við að Ljósufjallakerfið sé um 90 kílómetrar að lengd og í því margir gígar ungir, það er frá því eftir ísöld.

„Og í heiðunum fyrir norðan Mýrarnar, við Hreðavatn, Langavatn og þar um slóðir, eru nokkur lítil hraun sem eru frá því eftir ísöld. Á því svæði er Grjótárvatn og þar hefur líka gosið eftir ísöld, þar er skjálftavirknin núna. Ljósufjöllin eru sjálf úr líparíti, þess vegna heita þau Ljósufjöll eftir þessu ljósleita bergi, þetta er önnur kvikutegund en á Reykjanesskaganum,“ útskýrir prófessorinn.

Hann segir þó mest hafa komið af basalthrauni úr Ljósufjallakerfinu sem hvort tveggja hafi orðið að hrauni og móbergsmyndunum, þeim síðarnefndu er gos hafi átt sér stað undir jökli eins og í tilfelli Kerlingarfjalla.

„Í Ljósufjöllum hefur troðist upp dálítið seig eða þykk kvika af líparíti sem er mun hærra í kísilmagni, um það bil 70 til 75 prósent kísill, basaltið er aftur á móti 45 til 50 prósent kísill. Þess vegna er líparítið sem myndar Ljósufjöllin svona ljóst, vegna þessa háa kísilinnihalds,“ heldur Haraldur áfram og segir frá mikilli skjálftahrinu í Ljósufjallakerfinu árið 1938.

Haraldur Sigurðsson, prófessor emeritus í eldfjallafræði.
Haraldur Sigurðsson, prófessor emeritus í eldfjallafræði. mbl.is/RAX

Eitthvað mikið um að vera 1938

„Þá var bara einn skjálftamælir á Íslandi og hann var í Reykjavík, en þetta voru nokkuð stórir skjálftar, 3,5 til 5,4 stig og fundust greinilega á Snæfellsnesi, einkum í grennd við Stykkishólm og í sveitunum í kring. Allt bendir til að þessir skjálftar hafi orðið í eða undir Ljósufjöllum. Síðan hefur lítið hreyfst í Ljósufjallakerfinu þar til nú nýlega, en skjálftarnir 1938 voru mun stærri en skjálftarnir sem hafa verið núna og stærri en skjálftarnir sem hafa verið á Reykjanesskaga,“ segir eldfjallafræðingurinn.

Veðurstofan greindi frá því að 2. janúar hefði mælst samfelld óróahviða undir kvöld með upptök við Grjótárvatn. Varði hún í um 40 mínútur með samfelldum smáskjálftum sem flestir hefðu þó verið of smáir til að hægt væri að staðsetja þá, en einungis tveir skjálftar innan hviðunnar hefðu verið staðsettir. Hefðu þeir verið á rúmlega 15 kílómetra dýpi.

„Eitthvað mikið var um að vera þarna 1938 sem ekki kom upp á yfirborðið, en því miður voru engin tæki á svæðinu þannig að við vitum ekkert meira um það,“ segir Haraldur af skjálftunum fyrir hátt í níu áratugum. „Það sem núna er að gerast, miðað við fréttir frá Veðurstofunni og öðrum, bendir til kvikuhreyfinga á miklu dýpi, alveg í botni skorpunnar,“ segir hann enn fremur og gerir grein fyrir innri gerð jarðar.

Tilviljanakennt hversu langt kvikan fer upp

„Undir skorpunni, eða á 28 kílómetra dýpi, er möttullinn sem er mjög þykkur og nær 2.500 kílómetra niður – niður að kjarnanum – svo hann er aðalmaturinn í jörðinni. Möttullinn er heitur, hann er alveg við bræðslumark, en er þó ekki vökvi heldur heilt berg – heitt, heilt, fast og þungt – og það er þar sem bráðnunin byrjar. Þegar bergið í möttlinum bráðnar skilst það frá því eðlisþyngd þess er minni en möttullinn sjálfur. Þá leitar það upp í áttina að yfirborðinu,“ útlistar prófessorinn af spaklegri þekkingu sinni á helgustu véum jarðar.

Hvar kvikan komi upp segir hann svo ráðast af ýmsum þáttum, svo sem magni kvikunnar og hvort sprungukerfi sé fyrir ofan sem glóandi innvolsinu sé kleift að leita upp um.

„Það er dálítið tilviljanakennt hvað kvikan fer langt upp og þarna situr hún núna,“ segir hann og á við hreyfingarnar undir Grjótárvatni nú, en lítil eða engin merki eru um neina gliðnun í jarðskorpunni fyrir ofan. „Til þess að hún komist upp þarf að verða einhvers konar gliðnun eða sprungumyndun.“

Bera fór skyndilega á skjálftunum árið 2021, eins og Morgunblaðið …
Bera fór skyndilega á skjálftunum árið 2021, eins og Morgunblaðið og mbl.is hafa ítarlega fjallað um. Ljósufjallakerfið teygir sig frá Kolgrafafirði í vestri að Norðurá í Borgarfirði og dregur nafn sitt af fjallgarðinum á Snæfellsnesi. Skjálftarnir hafa þó að mestu verið bundnir við afmarkað svæði við Grjótárvatn og Hítarvatn. mbl.is/Árni Sæberg

Þarf að gliðna til austurs

Því næst spyr Haraldur sig um tengingar við aðrar jarðhræringar nýlegar sem vakið hafa heimsathygli.

„Það sem manni dettur strax í hug er hvort þetta sé á einhvern hátt tengt Reykjanesskaganum. Við vitum að flekinn sem er undir Faxaflóa, norðurhluti Reykjanesskagans, er hluti af Ameríkuflekanum. Ameríka situr á honum og hann nær alveg yfir að Kyrrahafsströnd Ameríku. Við Íslendingar sitjum svo á röndinni á flekanum hinum megin, sem liggur um Reykjanesskagann, og skjálftavirknin þar teiknar út þessa rönd sem liggur frá Reykjanestá og yfir í Hengilinn,“ lýsir hann.

Þar klofni flekaskilin og fari stundum upp í Langjökul, stundum austur um Suðurland og komi þar yfir í eystra gosbeltið. „Flekinn þarf eiginlega að gliðna til austurs, í gegnum Þingvelli kannski,“ segir Haraldur og blaðamaður grípur freklega fram í fyrir prófessornum.

Annars hvað, verður þá ekki neitt úr neinu og kvikan fer bara niður aftur eða hvað gerist?

„Ja, það veit maður ekki. Ef magn kvikunnar er nægilegt getur hún borað sér leið, hún getur þrengt sér upp,“ svarar Haraldur, „það er spursmál hvort gliðnunin á Reykjanesskaganum, sem er tugir sentimetra – sem Ameríkuflekinn er að mjakast til vesturs – hvort hún sé að rífa Snæfellsnesið. Það er spurningin,“ svarar hann að auki.

Ung eyja í Grundarfirði

Hver yrði þýðing þessa fyrir Snæfellsnes? Er fjölgun mælitækja þar brýn?

„Ég held að það sé nú verið að vinna í því. Páll Einarsson [prófessor emeritus í jarðeðlisfræði], þótt hann sé nú kominn á eftirlaun, hefur verið mikið á bak við það – að koma upp góðum tækjabúnaði – en það er bara nýlega sem jarðskjálftamælar eru komnir á Snæfellsnes,“ segir Haraldur og uppsker spurningu um hvort virknin núna geti fikrað sig út eftir nesinu, til dæmis í sjálfan Snæfellsjökul sem síðast gaus fyrir landnám.

„Það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé annars staðar en í Ljósufjallakerfinu,“ svarar hann og segir téð kerfi ná til Grundarfjarðar í vestur, að Kolgrafafirði í Eyrarsveit.

„En reyndar er ein eyja utarlega í Grundarfirði, Melrakkaey, og hún er ung. Hún er sennilega vesturendinn á Ljósufjallakerfinu. Í Landnámu er sagt frá Rauðhálsagosinu á Mýrum sem varð skömmu eftir landnám. Þar er skráð að þar hafi verið bærinn sem nú er Borg. Þar hlóðust upp gígar sem menn kölluðu Borg. Svo það er virkni hér og þar, og í Hnappadalnum, sem hefur orðið eftir að ísöld lauk fyrir tíu þúsund árum. Við verðum að líta á þetta kerfi sem virkt goskerfi,“ segir Haraldur.

Hvað með jökulinn?

Yrði einhver hætta á ferðum við mögulegt gos núna?

„Á þessu svæði er mjög lítil byggð og strjál, þetta er uppi í hæðunum og á heiðunum, en það er aldrei hægt að segja hvað þetta getur verið útbreitt og það getur verið öskufall og vikurfall og hraun sem fer yfir. En það hafa verið lítil hraun úr hraungosum í þessu kerfi fram til þessa,“ svarar prófessorinn og fær lokaspurningu, sprottna af hreinni forvitni.

Hvað með Snæfellsjökul, munu núlifandi kynslóðir sjá gos þar?

„Hann gaus vel fyrir landnám,“ svarar Haraldur Sigurðsson prófessor emeritus undir lok viðtals, „þar hefur ekki gosið á sögutíma. Áður en skjálftamælar voru settir upp á síðustu árum var ekkert vitað um skjálftavirkni undir Snæfellsjökli, en þýskir jarðeðlisfræðingar fóru og settu upp skjálftamæla við Snæfellsjökul svona 2000-2004 eða þar um bil og viti menn – þeir mældu strax skjálfta, mjög litla en samt mælanlega og þeir voru staðsettir undir jöklinum, á fimm til tíu kílómetra dýpi. Þannig að þarna er skjálftavirkni og eins og við vitum geta eldfjallasvæði tekið sér langa hvíld og svo kviknað aftur, en eins og staðan er núna eru engar breytingar í Snæfellsjökli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert