„Þetta er ansi öflug hrina sem hófst upp úr klukkan 6 í morgun. Stærsti skjálftinn mældist 4,5 að stærð klukkan 6.29 en það á þó eftir að yfirfæra hann.“
Þetta segir Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en upp úr klukkan 6 í morgun hófst öflug skjálftahrina í Bárðarbungu og hafa mælst yfir 40 skjálftar frá því hrinan hófst. Annar stór skjálfti reið yfir klukkan 7.40 og mældist hann 4 að stærð.
„Það er ekkert lát á þessari hrinu en hún er í norðvestanverðri öskjunni og þykir nokkuð óvenjuleg. Við fylgjumst vel með stöðu mála og við tökum stöðufund hér á Veðurstofunni um níuleytið,“ segir Böðvar.
Síðast gaus í öskju Bárðarbungu árið 2014, það var svokallað Holuhraungos, og spurður hvort þessi atburðarrás geti endað með gosi segir Böðvar:
„Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi en svo getur þetta líka fjarað út,“ segir hann.
Í gær hófst Grímsvatnahlaup en undanfarnar daga hefur mælst hægt vaxandi hlaupórói á jarðskjálftamælinum á Grímsfjalli.
Böðvar segir að hlaupið sé enn þá í gangi en telur ólíklegt að sá atburður tengist hrinunni sem er í Bárðarbungu.
„Staðan er svipuð og var í gær og það getur verið að hlaupið sé í hámarki núna. Við búumst ekki við því stóru jökulhlaupi,“ segir hann.