Þetta vitum við um atburðarás gosa í Bárðarbungu

Bárðarbunga hulin ís. Mynd úr safni.
Bárðarbunga hulin ís. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Bárðarbunga er stórt eld­stöðva­kerfi og gos geta orðið í meg­in­eld­stöðinni eða á ýms­um stöðum á sprungu­sveim­in­um.

Gerð þeirra fer að ein­hverju leyti eft­ir því á hvaða hluta eld­stöðva­kerf­is­ins virkn­in er.

Farið er yfir mögu­lega at­b­urðarás eld­gosa á ís­lensku eld­fjalla­vef­sjánni, sem haldið er úti af Veður­stof­unni, Há­skóla Íslands og al­manna­vörn­um.

Er hún rifjuð upp hér í ljósi kröft­ugr­ar skjálfta­hrinu sem hófst í Bárðarbungu í morg­un, og þykir minna á aðdrag­anda goss­ins sem braust út í ág­úst árið 2014.

Mörg ólík gos

Saga eld­stöðvar­inn­ar hef­ur að geyma mörg ólík gos sem orðið hafa ým­ist und­ir jökl­in­um sjálf­um, suðvest­ur af Bárðarbungu við Veiðivötn, eða norður af Bárðarbungu í Holu­hrauni, svo dæmi séu nefnd.

Jök­ul­hlaup sem fylgja þess­um gos­um eru sömu­leiðis ekki fyr­ir­sjá­an­leg og hafa runnið bæði til norður og suðurs.

Fyrr í morg­un var farið yfir mögu­leg­ar af­leiðing­ar eld­goss í Bárðarbungu.

1. Lítið sprengigos

Fyrst­ur er nefnd­ur mögu­leik­inn á litlu sprengigosi und­ir jökl­in­um, sem vari í daga eða vik­ur.

Lík­legt þyki að síðasta eld­gosið af þess­ari gerð hafi orðið árið 1910 og þar áður mögu­lega 1902. Viðvör­un­ar­tími slíkra gosa er óþekkt­ur.

Bent er á að há­marks­virkni í sprengigos­um yrði ekki endi­lega á fyrstu stig­um goss og að bú­ast megi við því að virkni yrði slitr­ótt.

Ákaft gjósku­fall gæti þá orðið í stutt­an tíma, eða um klukku­stund, utan Vatna­jök­uls. Ólík­lega yrði þykkt gjósku meiri en 5 senti­metr­ar í 25-30 kíló­metra fjar­lægð frá upp­tök­um og.

Hæð gos­makk­ar yrði að lík­ind­um und­ir tíu kíló­metr­um og litl­ar lík­ur á að gjóska bær­ist til meg­in­lands Evr­ópu.

Jök­ul­hlaup gæti farið norður eða suður

Lík­legt er að jök­ul­hlaup komi und­an norðvest­ur­hluta Vatna­jök­uls á meðan gos­inu stend­ur og er það mögu­lega und­an­fari sprengigoss á yf­ir­borði.

Bú­ist er við að jök­ul­hlaup valdi auknu rennsli eða flóðum í einni af þrem­ur ám, eða stund­um í tveim­ur á sama tíma. Það eru Jök­ulsá á Fjöll­um, eins og árið 1684; Þjórsá, eins og árið 1766, eða Skjálf­andafljót og Jök­ulsá á Fjöll­um, eins og árið 1902, en það fer eft­ir legu gosstöðva.

Há­marks­rennsli gæti verið allt frá 3.000 til 10.000 rúm­metra á sek­úndu, en til sam­an­b­urðar er meðal­rennsli Ölfusár við Sel­foss um 400 rúm­metr­ar á sek­úndu. Flóðin gætu borið með sér eitt­hvað af is­jök­um og aukið magn af seti, og gætu valdið skemmd­um á veg­um og brúm.

Síðast gaus út frá Bárðarbungu í Holuhrauni árin 2014-2015.
Síðast gaus út frá Bárðarbungu í Holu­hrauni árin 2014-2015. mbl.is/​Rax

2. Meðal­stórt eld­gos

Næst er farið yfir at­b­urðarás meðal­stórs sprengigoss, sem byrj­ar und­ir jökli og get­ur varað í vik­ur eða mánuði, eins og gosið árið 1717 sem varði frá byrj­un ág­úst og fram í miðjan sept­em­ber.

Gjósk­an úr því gosi dreifðist yfir Norður- og Norðaust­ur­land.

Lengd viðvör­un­ar­tíma fyr­ir álíka gos er óþekkt.

Hæð gos­makk­ar er sömu­leiðis óþekkt en gæti náð meira en 14 km. Slitr­ótt en um­tals­vert gjósku­fall yrði og bú­ast mætti við myrkri á ná­læg­um svæðum, eða í inn­an við 30 kíló­metra fjar­lægð. Á meg­in­landi Evr­ópu gæti orðið minni­hátt­ar gjósku­fall.

Jök­ul­hlaup­in mun stærri en í litlu gosi

Jök­ul­hlaup gætu komið und­an norðvest­ur­hluta Vatna­jök­uls í kjöl­far goss og valdið flóðum í Jök­ulsá á Fjöll­um, eins og gerðist end­ur­tekið á ár­un­um 1717 til 1730.

Hlaup gætu líka orðið í Þjórsá, Köldu­kvísl eða Skjálf­andafljóti en það fer eft­ir legu gosstöðva.

Há­marks­rennsli gæti verið allt frá 10.000 til 100.000 rúm­metr­ar á sek­úndu. Flóðin gætu borið með sér ís­stykki og aukið magn sets og valdið skemmd­um á veg­um og brúm.

Flæðigos á sprungu­sveimi gætu einnig staðið yfir, slitr­ótt, í um eitt til tvö ár, eins og eld­arn­ir í Trölla­hrauni á ár­un­um 1862 til 1864. Rúm­mál hrauna úr þeim var milli 0,3-0,5 km3 á 16 km langri sprungu. Rúm­mál gjósku yrði þá mjög lítið eða óveru­legt og eng­in jök­ul­hlaup yrðu.

Eina sprungugosið sem er vel þekkt er gosið árin 2014 …
Eina sprungugosið sem er vel þekkt er gosið árin 2014 til 2015. mbl.is/​RAX

3. Stórt eld­gos

Loks er nefnd­ur mögu­leik­inn á stóru gosi, en talið er að slík gos verði á meðaltali á 500 til þúsund ára fresti.

Bent er á að frá land­námi hafi stór gos ein­skorðast við sprungu­sveim­inn utan Vatna­jök­uls, bæði suðvest­an- og norðan­meg­in hans.

Stórt gos, aðallega flæðigos úr gossprungu, var­ir allt frá nokkr­um mánuðum til nokk­urra ára.

Eina sprungugosið sem er vel þekkt er gosið árin 2014 til 2015, sem átti sér stað á ís­laus­um hluta sprungu­sveims­ins norðan við Vatna­jök­ul.

Tekið er fram að stórt sprungugos á suðvest­ur­hluta sprungu­sveims­ins gæti stíflað Tungnaá tíma­bundið og myndað óstöðug stöðuvötn. Rennsli í flóðum sem myndu brjót­ast í gegn­um slík­ar stífl­ur gæti verið allt að 10.000 rúm­metr­ar á sek­úndu.

Viðvör­un­ar­tími gosa á suðvest­ur­hluta sprungu­sveims­ins er óþekkt­ur en væri lík­lega svipaður viðvör­un­ar­tíma gosa á norður­hlut­an­um.

Gæti þakið meira en hálft Ísland

Magn basískr­ar gjósku úr sprengigosi á suðvest­ur­hluta sprungu­sveims­ins, svipað Veiðivatnagos­inu árið 1477, gæti orðið meira en 5 rúm­kíló­metr­ar og gos­efni gætu þakið meira en 50.000 fer­kíló­metra, eða meira en hálft Ísland.

Bú­ast mætti við miklu gjósku­falli og myrkvun á nær­liggj­andi og miðlæg­um svæðum, eða í minna en 100 kíló­metra fjar­lægð. Gjósku­fall gæti náð til meg­in­lands Evr­ópu.

Loks er bent á að gos á ís­laus­um hluta sprungu­sveims­ins utan við Veiðivatna­svæðið verði einkum flæðigos. Hraun úr þeim gætu orðið 1-4 rúm­kíló­metr­ar og magn gjósku yrði tölu­vert.

Hraun úr slíku gosi gæti runnið tugi kíló­metra frá upp­tök­um og er þá minnst á svo­nefnd­an Frambruna frá 13. öld. Hraun gæti náð að virkj­un­um í Tungnaá.

Um­tals­vert magn kvikugasa kæmi úr gossprung­unni og hrauni sem væri að kólna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert