Upp úr klukkan fjögur í nótt voru björgunarsveitir í Borgarfirði kallaðar út vegna tilkynningar frá ferðamönnum í vandræðum við Kattarhryggi, á leið upp á Holtavörðuheiði.
Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir að þar hafi ræsi undir veginn stíflast svo flæddi yfir hann á stórum kafla. Ferðafólk á tveimur bílum hafði lent í vatninu og komst út úr bílunum og upp á þak þeirra, en þeir voru nánast á kafi í vatninu þegar björgunarsveitir komu á vettvang.
Svo mikið vatn var á veginum að björgunarmaður í öryggislínu þurfti að synda að öðrum bílanna, þar sem tveir ferðamenn voru á þaki hans og komust hvergi. Einn ferðamaður hafði komist að sjálfsdáðum á þurrt úr hinum bílnum.
Vel gekk að bjarga fólkinu af seinni bílnum og upp úr klukkan hálf sex í morgun voru allir þrír komnir í sjúkrabíl til aðhlynningar.
Björgunarfólk hafði þá jafnframt lýst vel upp nágrennið til að tryggja að engir aðrir væru þar ásamt því að veiða upp hluti sem flotið höfðu úr bílunum.
Í kjölfarið var Holtavörðuheiði lokað vegna vatnavaxta.