Vatnavextir hafa aukist í Hvítá síðdegis í dag og hefur vatn tekið að flæða inn í kjallara húsnæðis ábúanda á svæðinu.
Heiða Dís Fjeldsted býr í Ferjukoti í Borgarfirði. Hún segir í samtali við mbl.is að það hafi farið að flæða inn í kjallara heima hjá þeim um klukkan þrjú í dag og hafa þau verið að dæla upp vatni síðan. Hún gerir ráð fyrir því að vera að störfum fram á nótt til að koma í veg fyrir tjón í kjallaranum.
Aðspurð segist hún ekki vita hversu mikið vatn hafi flætt inn í kjallarann en segir að um leið og þau stoppa að dæla vatni fyllist allt af vatni aftur.
Greint var frá því í dag að brúin yfir Ferjukotssíki í Borgarfirði hefði fallið vegna mikilla vatnavaxta í Hvítá. Brúin féll skömmu eftir að íbúi á svæðinu keyrði yfir hana til vinnu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem flæðir inn í húsnæði Heiðu vegna vatnavaxta í Hvítá. Það gerðist líka árið 2023 en fyrir það hafði slíkt ekki gerst í 20 til 25 ár.
Brúin er tiltölulega ný en hún var reist sumarið 2023 og var hugsuð til bráðabirgða þar sem ekki fékkst fjármagn fyrir nýrri, varanlegri brú eftir að styttri brúin í Ferjukotssíki skemmdist í vatnavöxtum í Hvítá í mars 2023.
Hún var talin hættuleg og var því ákveðið að rífa hana og fylla í skarðið. Lengri brúin, í öðrum ál Ferjukotssíkis, var einnig illa farin eftir vatnavextina og var hún sömuleiðis rifin, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.
Heiða segir að heimamenn hafi verið gagnrýnir á smíði bráðabirgðabrúarinnar á sínum tíma.
„Það sögðu hér allir í kring að svona brú myndi aldrei virka, eins og var ákveðið að setja. Líka þeir sem voru hérna uppfrá frá Vegagerðinni og framkvæmdu þetta, þeir töldu þetta ekki ganga. En það var ekki mikið hlustað á okkur, þannig maður er pirraður yfir þessu,“ segir Heiða.