Töluverður hlaupórói mælist nú á skjálftamælum við Grímsvötn og hefur ágerst frá því í morgun.
Á mæli á Grímsfjalli, sem rís upp úr Vatnajökli ofan við eldstöðina, hefur mátt sjá púlsa frá um klukkan tíu í morgun og hafa þeir orðið tíðari eftir því sem liðið hefur á daginn.
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir vísindamenn stofnunarinnar telja að púlsarnir tengist suðu í jarðhitakerfinu þegar katlar Grímsvatna tæma sig.
„Þá er um að ræða mjög hraða þrýstingslækkun sem kemur þessu af stað í lok hlaups,“ segir Benedikt.
Hlaup úr Grímsvötnum hófst fyrir nokkrum dögum og fékkst staðfest á mánudag.
Þykir nú komið að lokum hlaupsins og Benedikt bendir á að þetta sé sá tími þar sem vísindamenn fylgist mest með hlaupinu, því gos þyki líklegast nú ef hlaupið á annað borð kemur slíkum umbrotum af stað.
„En þetta er mjög lítið hlaup og við eigum ekki endilega von á því í þetta sinn, en maður veit aldrei.“
Fluglitakóði fyrir Grímsvötn hefur nú verið hækkaður í gulan vegna fyrrgreindrar hættu.