Hæstiréttur hefur samþykkt beiðni um áfrýjunarleyfi í máli þar sem karlmaður var dæmdur fyrir nauðgun og ítrekuð kynferðisbrot gegn grunnskólanema.
Í október dæmdi Landsréttur Najeb Mohammad Alhaj Husin, sem er fyrrverandi starfsmaður í grunnskóla á Norðurlandi, í fimm ára fangelsi fyrir margítrekuð kynferðisbrot gegn stúlku á barnsaldri sem var nemandi við skólann.
Í nóvember leitaði Husin leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómnum. Ákæruvaldið lagðist gegn beiðninni.
Fram kemur í ákvörðun Hæstaréttar að Husin hafi verið sakfelldur í héraði samkvæmt ákæru að því undanskildu að brot samkvæmt öðrum ákærulið hafi einvörðungu verið færð undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Landsréttur staðfesti sakfellingu hans fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í fyrsta og þriðja ákærulið og heimfærslu brota til refsiákvæða með vísan til forsendna héraðsdóms.
Um annan ákærulið sagði í dómi Landsréttar að Husin hefði beitt brotaþola ólögmætri nauðung í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og var hann sakfelldur fyrir brot gegn ákvæðinu. Vegna ungs aldurs brotaþola var hann einnig talinn hafa brotið gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga.
Landsréttur tók fram að það leiddi jafnframt af síðarnefnda ákvæðinu að samþykki brotaþola til kynmaka hefði aldrei getað verið fyrir hendi. Háttsemi ákærða samkvæmt öðrum ákærulið hefði því réttilega verið færð til refsiákvæða í ákæru. Refsing ákærða sem var ákveðin þriggja ára og sex mánaða fangelsi í héraði var í Landsrétti ákveðin fimm ára fangelsi, að því er segir í ákvörðun Hæstaréttar.
Þar er jafnframt tekið fram að Husin byggi á því að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga um meðferð sakamála séu uppfyllt.
„Hann vísar til þess að meðferð málsins hafi verið stórlega ábótavant og að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Þannig hafi niðurstaða málsins byggt á reikulum framburði brotaþola, rangt mat hafi verið lagt á samskipti aðila á samfélagsmiðlinum Snapchat og rannsókn málsins verið verulega ábótavant. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið lúti að atriði sem ákærði var sýknaður af í héraði en sakfelldur fyrir í Landsrétti. Enn fremur hafi úrslit málsins fordæmisgildi og verulega almenna þýðingu við mat á því hvort barn undir 15 ára aldri geti gefið samþykki fyrir samræði eða öðrum kynferðismökum. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að niðurstaða Landsréttar um að hækka miskabætur um 1,5 milljónir króna sé bersýnilega röng og í engu samræmi við dómaframkvæmd,“ segir í ákvörðuninni.
Hæstiréttur segir að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu Husin og um önnur atriði að því leyti sem hún byggi á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verði ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti.
„Hins vegar verður talið að úrlausn málsins, einkum um heimfærslu háttsemi leyfisbeiðanda samkvæmt öðrum ákærulið til refsiákvæða, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.“