Ný forysta í uppsiglingu: Hver tekur við taumunum?

Búast má við því að menn byrji að tilkynna um …
Búast má við því að menn byrji að tilkynna um framboð á næstu vikum. Samsett mynd/mbl.is

Nokkrir sjálfstæðismenn liggja undir feldi og íhuga sín næstu skref fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem verður haldinn í lok febrúar. Ljóst er að á fundinum verður nýtt fólk kjörið í embætti formanns og varaformanns.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti 6. janúar að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is á mánudag að hún myndi ekki bjóða sig fram í varaformannsembættið aftur, en til greina kæmi að fara í formannsframboð.

mbl.is hefur haft samband við flesta þá sem eru orðaðir við formannsframboð á komandi landsfundi. Sumir útilokuðu ekki framboð á sama tíma og aðrir sögðu slíkt framboð ekki á dagskrá.

Ásdís og Halldór ekki á leið í formannsframboð

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður, Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður og Þórdís Kolbrún þingmaður útiloka ekki formannsframboð á komandi landsfundi.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, og Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima, segja í samtali við mbl.is að formannsframboð sé ekki á dagskrá en bæði hafa þau verið orðuð við formannsframboð.

Ekki náðist í Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við vinnslu fréttarinnar en hún hefur verið orðuð við formannsframboð.

Miðstjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins ákvað á fundi sín­um á mánudag að breyta ekki dag­setn­ingu lands­fund­ar flokks­ins. Fer hann því fram dag­ana 28. fe­brú­ar til 2. mars.

Bjarni mun ekki sækjast eftir endurkjöri.
Bjarni mun ekki sækjast eftir endurkjöri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm útiloka ekki formannsframboð

„Ég hef ávallt lagt mikla áherslu á sam­tal við flokks­menn og mun taka ákvörðun fljót­lega, en mun upp­lýsa um hana þegar hún ligg­ur fyr­ir,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is, spurð hvort að hún ætli að bjóða sig fram til formanns.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir aðspurður að hingað til hafi hann ekki hugsað um embætti í forystu flokksins.

„Ég tek þó stöðu flokks­ins al­var­lega og mun ekki láta mitt eft­ir liggja í þeirri viðspyrnu sem við sjálf­stæðis­fólk stefn­um nú að. Ég mun mæta á lands­fund og þar eru all­ir fund­ar­menn í fram­boði,“ segir Elliði.

Guðlaugur seg­ir í samtali við mbl.is að hann muni til­kynna ákvörðun sína um hvort hann bjóði sig fram til for­mennsku „þegar þar að kem­ur“.

Guðrún kveðst hafa fengið mikla hvatn­ingu um að bjóða sig fram til for­manns og er þakk­lát fyr­ir það.

„Ég hef óbilandi trú á framtíð flokks­ins og ís­lensku sam­fé­lagi. Ég tek áskor­un­um af æðru­leysi og úti­loka ekki for­manns­fram­boð. Ég mun fyrst og fremst gera það sem ég tel vera flokkn­um fyr­ir bestu,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Þór­dís Kol­brún segir í samtali við mbl.is að það komi til greina að hún bjóði sig fram til formennsku í flokknum á komandi lands­fundi.

Ein stærsta pólitíska samkoma landsins

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll og er fundurinn ein stærsta pólitíska samkoma landsins, en þar eiga vel á annað þúsund fulltrúar seturétt hverju sinni samkvæmt heimasíðu Sjálfstæðisflokksins. 

Á lands­fund­in­um verður kosið í ýmis embætti eins og til dæm­is formann, vara­formann og rit­ara Sjálf­stæðis­flokks­ins. 

Marg­ir hafa verið orðaðir við fyrr­nefnd embætti og má bú­ast við því að menn byrji að til­kynna um fram­boð á næstu vik­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert