Nokkrir sjálfstæðismenn liggja undir feldi og íhuga sín næstu skref fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins sem verður haldinn í lok febrúar. Ljóst er að á fundinum verður nýtt fólk kjörið í embætti formanns og varaformanns.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti 6. janúar að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við mbl.is á mánudag að hún myndi ekki bjóða sig fram í varaformannsembættið aftur, en til greina kæmi að fara í formannsframboð.
mbl.is hefur haft samband við flesta þá sem eru orðaðir við formannsframboð á komandi landsfundi. Sumir útilokuðu ekki framboð á sama tíma og aðrir sögðu slíkt framboð ekki á dagskrá.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þingmaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður, Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður og Þórdís Kolbrún þingmaður útiloka ekki formannsframboð á komandi landsfundi.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, og Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima, segja í samtali við mbl.is að formannsframboð sé ekki á dagskrá en bæði hafa þau verið orðuð við formannsframboð.
Ekki náðist í Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við vinnslu fréttarinnar en hún hefur verið orðuð við formannsframboð.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum á mánudag að breyta ekki dagsetningu landsfundar flokksins. Fer hann því fram dagana 28. febrúar til 2. mars.
„Ég hef ávallt lagt mikla áherslu á samtal við flokksmenn og mun taka ákvörðun fljótlega, en mun upplýsa um hana þegar hún liggur fyrir,“ segir Áslaug í samtali við mbl.is, spurð hvort að hún ætli að bjóða sig fram til formanns.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir aðspurður að hingað til hafi hann ekki hugsað um embætti í forystu flokksins.
„Ég tek þó stöðu flokksins alvarlega og mun ekki láta mitt eftir liggja í þeirri viðspyrnu sem við sjálfstæðisfólk stefnum nú að. Ég mun mæta á landsfund og þar eru allir fundarmenn í framboði,“ segir Elliði.
Guðlaugur segir í samtali við mbl.is að hann muni tilkynna ákvörðun sína um hvort hann bjóði sig fram til formennsku „þegar þar að kemur“.
Guðrún kveðst hafa fengið mikla hvatningu um að bjóða sig fram til formanns og er þakklát fyrir það.
„Ég hef óbilandi trú á framtíð flokksins og íslensku samfélagi. Ég tek áskorunum af æðruleysi og útiloka ekki formannsframboð. Ég mun fyrst og fremst gera það sem ég tel vera flokknum fyrir bestu,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Þórdís Kolbrún segir í samtali við mbl.is að það komi til greina að hún bjóði sig fram til formennsku í flokknum á komandi landsfundi.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll og er fundurinn ein stærsta pólitíska samkoma landsins, en þar eiga vel á annað þúsund fulltrúar seturétt hverju sinni samkvæmt heimasíðu Sjálfstæðisflokksins.
Á landsfundinum verður kosið í ýmis embætti eins og til dæmis formann, varaformann og ritara Sjálfstæðisflokksins.
Margir hafa verið orðaðir við fyrrnefnd embætti og má búast við því að menn byrji að tilkynna um framboð á næstu vikum.