Leyfi fyrir Hvammsvirkjun ógilt

Leyfi fyrir fyrirhugaða Hvammsvirkjun hefur verið ógilt af Héraðsdómi Reykjavíkur.
Leyfi fyrir fyrirhugaða Hvammsvirkjun hefur verið ógilt af Héraðsdómi Reykjavíkur. Ljósmynd/Landsvirkjun

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt leyfisveitingu sem Orkustofnun veitti Landsvirkjun í fyrra til þess að reisa raforkuverið Hvammsvirkjun.

Þetta staðfestir Friðleifur Egill Guðmundsson, annar lögmanna málsins.

Þá hefur dómstóllinn einnig ógilt heimild Umhverfisstofnunar til þess að breyta vatnshlotinu Þjórsá 1.

Fjallar um undanþágu Umhverfisstofnunar

„Þetta fjallar um undanþágu Umhverfisstofnunar frá bindandi umhverfismarkmiðum laga um stjórn vatnamála,“ segir Sif Konráðsdóttir lögmaður, en hún flutti málið fyrir dómi ásamt Friðleifi Agli Guðmundssyni.

„Umhverfisstofnun var þarna að veita vissa undanþágu eftir að það var búið að ógilda virkjanaleyfi á æðra stjórnsýslustigi. Það var gert í júlí 2023 og þá sótti Landsvirkjun um heimild til undanþágu og hún var veitt í apríl í fyrra og þá var farið í þetta dómsmál til að ógilda þá undanþágu.“

Aldrei reynt á áður

Virkjunarleyfið var svo gefið út á meðan málið var í gangi, eða í september í fyrra, og lét þá Sif gefa út framhaldsstefnu út af virkjunarleyfinu og þess vegna hafi það verið fellt úr gildi líka.

„Þannig að þetta er í grunninn um þessa undanþágu Umhverfisstofnunar frá bindandi markmiðum laga um stjórn vatnamála sem koma frá vatnatilskipun Evrópusambandsins,“ segir Sif og bætir við:

„Það hefur aldrei reynt á þetta fyrir dómi, aldrei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert