Ekki er ólíklegt að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, um að fella úr gildi virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun, muni valda nokkurra ára töfum á gangsetningu virkjunarinnar.
Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við mbl.is.
Nýjustu áætlanir gerðu ráð fyrir gangsetningu Hvammsvirkjunar árið 2029 en nú kann það að breytast.
Erum við að tala um nokkurra ára seinkun?
„Það er ekkert ólíklegt. Við sjáum bara að þegar leyfið var fellt síðast þá var það um tveggja ára seinkun,“ segir hann.
Orkustofnun hafði áður gefið út virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í desember 2022. Það var hins vegar kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi leyfið úr gildi.
Hörður segir að menn hafi byrjað í undirbúningsframkvæmdum við Hvammsvirkjun á síðasta ári á grundvelli virkjunarleyfisins. Nú þurfi að skoða nánar hvaða áhrif dómurinn hefur á framgang þeirra.
„Stærstu áhrifin eru náttúrulega bara hvaða áhrif þetta hefur á samfélagið. Það er mikil þörf fyrir orku eins og flestir gera sér grein fyrir,“ segir hann.
Hann segir mjög líklegt að Landsvirkjun muni áfrýja dómnum en segir þó ekki ljóst hvort að óskað verði eftir því að fara með málið beint til Hæstaréttar.