Rannsókn lögreglu í tengslum við andlát konu á sjötugsaldri í Breiðholti á síðasta ári er lokið og málið komið til héraðssaksóknara.
Þetta segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Gæsluvarðhald yfir karlmanni, sem er grunaður um að hafa verið valdur að dauða konunnar og er sonur hennar, á að renna út í dag.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir við mbl.is að búið sé að gera kröfu um framlengingu á gæsluvarðhaldi um fjórar vikur.
Á morgun hefur sá grunaði setið í gæsluvarðhaldi í tólf vikur. Enginn getur setið lengur í gæsluvarðhaldi lengur en tólf vikur ef ekki er gefin út ákæra. Undantekning er þó ef brýnir rannsóknarhagsmunir eru til staðar.
Lögregla fékk tilkynningu um málið á miðnætti 23. október. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang í íbúð í fjölbýlishúsi í Breiðholti voru strax hafnar endurlífgunartilraunir. Þær báru ekki árangur og var konan úrskurðuð látin.
Í kjölfarið var sonur konunnar handtekinn en hann var þá nýsloppinn úr fangelsi eftir að hafa afplánað dóm fyrir ofbeldi gegn móður sinni. Þá var hann ákærður árið 2006 fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa stungið föður sinn í bakið.
Maðurinn var metinn ósakhæfur og fram kom í Héraðsdómi Reykjavíkur að á verknaðastundu hafi hann verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Honum var gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.