Synti yfir ísvatnið: „Ekki eftir neinu að bíða“

Eins og sjá má var bíllinn langt fyrir utan veg.
Eins og sjá má var bíllinn langt fyrir utan veg. Ljósmynd/Landsbjörg

Þorsteinn Þorsteinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Heiðars á Varmalandi í Borgarfirði, segist aldrei hafa lent í öðru eins útkalli og í nótt þegar bjarga þurfti ferðamönnum sem voru á toppi bíls sem var á bólakafi við Kattarhrygg á Hringveginum. Í gegnum ísvatnið synti Þorsteinn með björgunarlínu til mannanna svo hægt væri að draga þá á land.

Greint var frá málinu í morgun en stífla í ræsi undir veginum leiddi til þess að vatn flæddi yfir veginn á stórum kafla. Ferðamenn á tveimur bílum lentu í vatninu en náðu að komast úr bílunum og upp á þak þeirra.

Einn ferðamaður náði að koma sjálfum sér á þurrt land af sjálfsdáðum en eftir stóðu tveir á þaki annars bílsins.

Þurftu að hugsa hratt

„Ég hef aldrei lent í svona og við vorum í raun og veru ekki búnir að búa okkur undir þetta þegar við komum fram á heiði. Við vorum búnir að sjá þetta þannig fyrir okkur að við gætum bara keyrt að bílnum og sótt mennina. En að bíllinn skuli vera svona langt fyrir utan veg og á bólakafi – því óraði okkur ekki fyrir,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Ferðamennirnir voru að nálgast Holtavörðuheiði úr suðri þegar atvikið kom upp, ekki langt frá Fornahvammi.

Segir Þorsteinn að liðsmenn björgunarsveitarinnar hafi þurft að hugsa hratt og vera fljótir að taka til verka þegar þeir sáu að engin leið var fyrir björgunarsveitarbílinn til að komast upp að mönnunum. Aðeins var hægt að sjá hálfan bíltoppinn og skottlokið á bílnum þegar þá bar að garði.

Þorsteinn Þorsteinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Heiðar.
Þorsteinn Þorsteinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Heiðar. Ljósmynd/Aðsend

Vöðlurnar ekki að fara að duga

Því var ákveðið að snúa björgunarsveitarbílnum við þannig að hægt væri að lýsa yfir vatnið og á mennina og kom lítið annað til greina en að synda yfir til þeirra með björgunarlínu en að sögn Þorsteins voru mennirnir syndir en þorðu þó ekki út í vatnið.

Nefnir Þorsteinn að hann sjálfur eigi sex til sjö þurrgalla þar sem hann er mikið á bátum en að ekki hafi hvarflað að honum að taka einn þeirra með í útkallið.

„Ég var með vöðlurnar og það allt saman en það dugði ekkert í þessu náttúrulega.“

Eins og sjá má var bíllinn á bólakafi en rétt …
Eins og sjá má var bíllinn á bólakafi en rétt svo sást í topp hans og opið skottlok. Ljósmynd/Landsbjörg

„Þeim var eiginlega kippt út í“

Næsta skref var því að fara úr björgunarjakkanum og hnýta á sig línu. Í björgunarbuxum og flíspeysu einum klæða synti Þorsteinn yfir ísvatnið með línuna sem búið var að gera lykkjur á.

Því næst tóku ferðamennirnir við línunni og settu lykkjurnar hver á sína hönd.

„Síðan var bara togað fulla ferð til baka. Þeim var eiginlega kippt út í og dregnir fulla ferð í land þar sem sjúkraflutningafólkið tók á móti þeim.“

Ljósmynd/Landsbjörg

Vatn og bráðinn snjór úr hlíðunum

Þorsteinn sjálfur var í vatninu á meðan mennirnir voru dregnir í land og fylgdi svo rétt á eftir þeim upp úr vatninu og játar hann því að kuldinn hafi gert vart við sig.

„Það var rosalega kalt. Þetta er bara ísvatn.“

Að sögn Þorsteins stíflaði klaki líklega ræsið undir veginum og því hafi vatn og bráðinn snjór úr hlíðunum við veginn runnið niður og safnast saman í stóra tjörn fyrir ofan veginn.

Þorsteini finnst líklegt að mennirnir hafi verið ofan á þaki …
Þorsteini finnst líklegt að mennirnir hafi verið ofan á þaki bílsins í um tvo tíma, jafnvel lengur. Ljósmynd/Landsbjörg

Sjokkeraðir og mjög kaldir

Nefnir hann að um rétt rúmur klukkutími hafi liðið frá því að björgunarsveitinni barst útkallið og þangað til hún kom á vettvang. Því gerir hann ráð fyrir að mennirnir hafi staðið á toppi bílsins í kringum tvo tíma, jafnvel meira, og augljóslega í áfalli.

„Þeir voru mjög sjokkeraðir og þeir voru orðnir mjög kaldir þegar við náðum þeim yfir. Það var alveg hífandi rok þarna og rigning.“

Ljósmynd/Landsbjörg

Gekk hratt fyrir sig

Nefnir björgunarsveitarmaðurinn að lokum að verkefnið hafi þó í raun gengið alveg ótrúlega hratt fyrir sig þegar sveitina bar að garði og að í aðstæðum sem þessum sé í raun ekkert annað hægt að gera en að láta bara vaða.

„Það var í rauninni ekki eftir neinu að bíða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert