Alls voru þingmönnum utan Reykjavíkurkjördæmanna og Suðvesturkjördæmis greiddar 138,7 milljónir króna í húsnæðis- og dvalarkostnað á síðasta kjörtímabili, en 25 þingmenn fengu þessar greiðslur á grundvelli reglna Alþingis um þingfararkostnað.
Upphæðin nemur 185.500 krónum á mánuði skv. gildandi reglum. Þetta kemur fram í svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Reglur Alþingis hvað þetta varðar mæla fyrir um aukagreiðslur til þingmanna m.a. vegna húsnæðis- og dvalarkostnaðar, ferðakostnaðar, kostnaðar vegna funda og ýmiss starfskostnaðar.
Á grundvelli reglnanna fengu 12 þingmenn sem heimili áttu utan höfuðborgarsvæðisins greiddar 16,2 milljónir króna vegna daglegra ferða milli heimilis og Reykjavíkur um þingtímann.
Í reglunum er kveðið á um að eigi alþingismaður aðalheimili utan höfuðborgarsvæðis og haldi annað heimili í Reykjavík geti hann óskað eftir að fá greitt 40% álag á mánaðarlegan húsnæðis- og dvalarkostnað, þ.e. 74.200 krónur. Með „aðalheimili“ þingmanns samkvæmt þessu ákvæði er átt við skráð íbúðarhúsnæði sem er aðsetur þingmannsins í kjördæminu og hann á eða hefur á leigu, hefur kostnað af allt árið og nýtir til búsetu. Alls fengu 15 þingmenn þessar greiðslur á síðasta kjörtímabili og voru greiddar 34,8 milljónir til þeirra.
Reglurnar mæla fyrir um að alþingismaður fái mánaðarlega greiddar 41.500 krónur í fastan ferðakostnað og er fjárhæðinni ætlað að standa undir ferðakostnaði í næsta nágrenni heimilis eða starfsstöðvar, auk dvalarkostnaðar á ferðalögum í kjördæmi. Alls þáðu 55 þingmenn þessar greiðslur og nam heildarupphæðin 71,2 milljónum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag