Tugprósenta vöxtur í tilraunum til netárása

Anton Már Egilsson forstjóri Syndis segir þróunina hringja viðvörununarbjöllum.
Anton Már Egilsson forstjóri Syndis segir þróunina hringja viðvörununarbjöllum. mbl.is/Eyþór

Tugprósenta vöxtur varð í tilraunum til netárása á síðasta ári. Greindi netöryggisfyrirtækið Syndis yfir 30 þúsund tilraunir til netárása og misnotkunar á kerfum árið 2024. 

Anton Már Egilsson, forstjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis, segir þróunina hringja viðvörunarbjöllum.

Rússneskir netþrjótar standa að baki tölvuárásinni sem gerð var á kerfi Toyota á Íslandi og Bílanausts í vikunni. 

Hópurinn sem um ræðir hefur staðið á bak við fjölda árása á íslensk fyrirtæki þar á meðal stórfellda netárás á Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, þar sem gríðarlegt magn gagna var tekið í gíslingu. 

Starfsmenn Syndis hafa frá því á mánudagsmorgun unnið með tölvudeild Toyota við að rannsaka árásina, byggja tölvukerfin upp á nýtt og fyrirbyggja frekari skaða. 

Aðspurður segir Anton að vinnan við að leysa úr þeim flækjum sem fylgja netárásum vera viðamikið verk og að ágætlega hafi gengið að leysa úr þeim máli Toyota. Hann segir að ekki sé hægt að segja til um mögulegt tjón af árásinni en að ljóst sé að það verði eitthvað þar sem kerfi á vegum Toyota hafi verið í gíslingu. 

Þrjótarnir nýta sér gervigreindina

Fyrir tæpum mánuði varð upplýsingatæknifyrirtækið Wise einnig fyrir alvarlegri netárás þar sem tekin voru afrit af gögnum.

„Þegar við glímum við svona alvarlega atburði á nokkurra vikna fresti sýnir það hvað tilraunir til árása eru orðnar margar,“ segir Anton. 

Hann segir að sífellt komi betur í ljós hversu færir netþrjótarnir eru orðnir við að brjótast inn í kerfin. Áður gat það tekið allt að sex vikur að komast inn í kerfi fyrirtækja og þar til hægt var að valda skaða en nú sé tíminn kominn niður í fjórar klukkustundir. 

Aðspurður segir hann ástæðuna meðal annars vera vegna tæknibreytinga og nýta netþrjótarnir sér gervigreindina. Nefnir hann að með henni geti þeir til dæmis búið til trúverðugri tölvupósta sem fólk er líklegra til að falla fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert