„Verið að ráðast á þennan iðnað“

Skemmtiferðaskipið Caribbean Princess við höfnina á Akureyri síðasta sumar.
Skemmtiferðaskipið Caribbean Princess við höfnina á Akureyri síðasta sumar. mbl.is/Haraldur Johannessen

„Maður hefur smá áhyggjur af langtímaáhrifunum. Það er alla vega fækkun hjá okkur sem mun rýra okkar möguleika á uppbyggingu. Það er alveg ljóst.“

Þetta segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, en undir hatti þess eru hafnir á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Tilefnið er álagning innviðagjalds á skipafélög, sem tók gildi um áramót. Borið hefur á afbókunum skipafélaga og önnur sem hafa bókað á undanförnum árum halda að sér höndum.

Á ekki að mismuna ferðalöngum

Við höfum alltaf sagt að það eigi ekki að mismuna ferðalöngum, hvort sem þeir koma með flugi eða skipum. Það á bara að vera sama eða sambærilegt gjald á þá alla,“ segir Pétur sem tekur dæmi um einstakling eða par sem dvelur í fimm nætur við Íslandsstrendur. Gjaldið nemi þá 12.500 krónum á mann og 25.000 krónum á parið.

„Það er augljóst að farþegi með flugi er ekki að greiða svona hátt gjald og augljóslega verið að ráðast á þennan iðnað.

Hafnarsamlagið tekur á móti 214 skipum á þessu ári á móti 256 skipum á síðasta ári en þróunin hefur verið upp á við frá lokum heimsfaraldurs. „Þannig að þetta er verulega niður á við núna,“ segir Pétur og bætir við að svo virðist sem meira og minna séu um minni skip að ræða sem séu að heltast úr lestinni.

Hann segir enga vissu fyrir því að þau skipafélög sem beint hafa skipum sínum annað í ár leiti aftur hingað til lands í einhverri framtíð eða hvort nýir áfangastaðir hafi verið eða verði fundnir í öðrum löndum til frambúðar. Versta sviðsmyndin sé að einhver skipafélög hætti að sigla til Íslands sem þýði að ríkið fái ekki tekjur af þeim í framtíðinni.

Illa ígrunduð innleiðing

Minnir Pétur á orðræðu frá Cruise Iceland og fjölmörgum sveitarstjórnum, bæjarstjórum og forsvarsmönnum hafna hringinn í kringum landið fyrir áramót og tekur heilshugar undir að innleiðing innviðagjaldsins hafi verið illa ígrunduð. 

„Menn hefðu átt að gera þetta í ákveðnum skrefum og vinna með hagaðilum til þess að lágmarka möguleikann á skaðvænlegum áhrifum á rekstur hafnarsjóða og sveitarfélaga og þar af leiðandi jafnvel ríkissjóðs til lengri tíma.“

Pétur segir skipafélögin vilja skilja eftir sig jákvæð fjárhagsleg áhrif og vilji greiða innviðagjöld en segir þau vitanlega þurfa að geta rukkað sína viðskiptavini um þau gjöld. Þar sem álagningin hafi komið þetta bratt upp að þessu sinni og í þetta hárri upphæð hafi þau enga möguleika á að rukka farþegana um gjöldin og verði að borga þau úr sínum sjóðum.

Fyrirtækin hafa þrýst mjög á sína íslensku samstarfsaðila að reyna að opna augu stjórnvalda fyrir því að leggja gjöldin á í skynsamlegum skrefum að sögn Péturs sem bætir við að forsvarsmenn fyrirtækjanna hafi komið hingað til lands og átt samtal við bæði embættismenn og þingmenn. Virðist vera sem svo að lítið sem ekkert hafi verið hlustað. Ekki frekar en á hagaðila á Íslandi.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands.
Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands. Ljósmynd/Aðsend

Hvatinn dáið út

Eðlilegast hafi verið að gjaldið hefði tekið gildi nú um áramót á seldar ferðir eftir áramót að mati Péturs. Það væri stighækkandi í t.d. þrjú ár þar til það myndi ná fullri hæð. Ítrekar hann að skipafélögin séu sátt við að borga en ekki sátt við útfærsluna og tímalínuna. 

Þá minnir hafnarstjórinn á að um áramót hafi skattafrádráttur undanfarinna ára – hvatinn fyrir litlu skipin að sigla hringinn um landið, dáið út. Þannig sé dálítið erfitt að segja hver ástæða slægrar bókunarstöðu og afbókana sé.

„Mér finnst líklegt að menn með mörg af litlu skipunum hafi verið búnir að vinna sér í haginn fyrir áramót,“ segir Pétur.

Telur hann að forsvarsmenn skipafélaga með minni skip hafi þegar verið farnir að gera ráðstafanir um að færa áætlanir skipanna á önnur hafsvæði því hvatinn á þessu hafsvæði væri lítill, meðal annars vegna áðurnefndra skattafrádrátta. Það hafi sést í bókunartölum fyrir minni skip. 

Akureyrarhöfn er oft þétt setin skemmtiferðaskipum.
Akureyrarhöfn er oft þétt setin skemmtiferðaskipum. mbl.is/Haraldur Johannessen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert