Uppi eru áform um að hefja framleiðslu vetnis og byggingu vetnisáfyllingarstöðvar við hlið tengivirkis Landsnets og dreifistöðvar Veitna við Korpu í Reykjavík, en ætlunin er að nýta vetnið sem eldsneyti fyrir samgöngur.
Það eru fyrirtækin Landsvirkjun, Linde og Olís sem standa að verkefninu, en það er kynnt í skipulagsgátt.
Vetni er framleitt með rafgreiningu vatns og er ætlunin að setja upp 5 megavatta rafgreini í því skyni og að honum verði komið í rekstur um mitt ár 2027, en framleiðslugetan er áætluð 775 tonn af vetni á ári. Þá er og gert ráð fyrir stækkun rafgreinisins í allt að 10 megavött innan fárra ára, mun þá framleiðslugetan tvöfaldast og verða 1.550 tonn á ári þegar þar að kemur.
Verkefninu er svo lýst í skipulagsgátt að með því verði stigin stór skref í orkuskiptum á Íslandi, einkum í þungaflutningum á landi og í iðnaði, og að það styðji við markmið stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum.
Auk Landsvirkjunar kemur verkfræðifyrirtækið Linde að þessu verkefni, en það býr yfir sérþekkingu í vetnistækni. Ætlunin er að dreifa vetni fyrir viðskiptavini víða um land. Auk Landsvirkjunar og Linde stendur Olís að verkefninu, en fyrirtækið hyggst koma vetnisáfyllingarstöð í rekstur og gera rekstraraðilum vetnisknúinna ökutækja af ýmsum stærðum og gerðum kleift að nýta vetni til áfyllingar. Verður áfyllingarstöðin við hlið rafgreinisins.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag