Aldrei fleiri ferðamenn til Íslands

Ný austurálma flug­stöðvar­inn­ar verður tek­in að fullu í notk­un á …
Ný austurálma flug­stöðvar­inn­ar verður tek­in að fullu í notk­un á ár­inu, þar á meðal fjór­ir nýir land­gang­ar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aldrei munu fleiri er­lend­ir ferðamenn ferðast til Íslands en á þessu ári ef marka má farþega­spá Kefla­vík­ur­flug­vall­ar. Spá­in ger­ir ráð fyr­ir rúm­um 2,32 millj­ón­um er­lendra ferðamanna á ár­inu, 9 þúsund fleiri en á metár­inu 2018.

Alls munu um 8,37 millj­ón­ir farþega ferðast um flug­völl­inn árið 2025 og nem­ur fjölg­un þeirra 0,8% milli ára. Aðeins tvisvar hafa farþegar verið fleiri en þeir voru 8,76 millj­ón­ir 2017 og 9,8 millj­ón­ir 2018.

„Við horf­um fram á hóf­leg­an vöxt og þriðja stærsta ár Kefla­vík­ur­flug­vall­ar hvað varðar farþega­fjölda, og það stærsta í komu er­lendra ferðamanna,“ er haft eft­ir Guðmundi Daða Rún­ars­syni, fram­kvæmda­stjóra viðskipta og þró­un­ar á Kefla­vík­ur­flug­velli, í til­kynn­ingu. End­ur­spegli spá­in sterka stöðu Kefla­vík­ur­flug­vall­ar sem tengistöðvar og Íslands sem eft­ir­sókn­ar­verðs áfangastaðar þrátt fyr­ir áskor­an­ir á liðnu ári.

Ný austurálma tek­in í notk­un

Ný austurálma flug­stöðvar­inn­ar verður tek­in að fullu í notk­un á ár­inu, þar á meðal fjór­ir nýir land­gang­ar. Haft er eft­ir Guðmundi Daða að um mik­il­væg­an áfanga sé að ræða í að bæta gæði og þjón­ustu flug­vall­ar­ins. „Þessi þróun styrk­ir okk­ur í alþjóðlegri sam­keppni og skap­ar betri upp­lif­un fyr­ir gesti okk­ar og viðskipta­vini.“

26 fljúgi til 92 áfangastaða í sum­ar

Mesta fjölg­un milli mánaða frá fyrra ári verður sam­kvæmt spánni í apríl eða 16,7%. 26 flug­fé­lög munu fljúga áætl­un­ar­flug yfir sum­ar­mánuðina til 92 áfangastaða og 21 flug­fé­lag til 70 áfangastaða yfir vetr­ar­mánuðina. Áætlað er að hlut­fall tengif­arþega, farþega sem nýta Kefla­vík­ur­flug­völl sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi, verði um 30% af heild­ar farþega­fjölda sem svip­ar til liðins árs.

Íslend­ing­ar fari oft­ar utan

Ferðalög Íslend­inga til út­landa munu sam­kvæmt spánni aukast um 1% á milli ára. Spá­in ger­ir ráð fyr­ir um 612 þúsund ís­lensk­um ferðamönn­um á leið til út­landa, sem jafn­gild­ir um 1,6 ut­an­lands­ferð hvers lands­manns yfir árið.

Farþega­spá Kefla­vík­ur­flug­vall­ar bygg­ir á grein­ing­um og mati á þátt­um sem hafa áhrif á eft­ir­spurn farþega eft­ir flugi til og frá flug­vell­in­um. Spá­in er unn­in út frá upp­lýs­ing­um um af­greiðslu­tíma sem flug­fé­lög hafa tryggt sér og upp­lýs­ing­um úr kerf­um Kefla­vík­ur­flug­vall­ar til viðbót­ar við frétt­ir af áform­um flug­fé­laga.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka