Ný rannsókn sýnir að endurnotkun á Íslandi var 19,93 kíló á íbúa árið 2023. Dæmi um endurnotkun er þegar notaðar vörur eru seldar í netsölu, sölutorgum á samfélagsmiðlum, nytjamörkuðum eða afhentar gefins á milli fólks.
Er endurnotkun skilgreind sem hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
Þetta segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun en stofnunin gaf út skýrslu í lok árs 2024 með niðurstöðum úr kortlagningu á endurnotkun á Íslandi árið 2023 og er þetta í fyrsta sinn sem endurnotkun hefur verið mæld hér á landi með þessum skala.
„Með sífellt vaxandi umsvifum loppumarkaða, samfélagsmiðla og aukinni umhverfisvitund almennings á Íslandi hefur markaður endurnotkunar náð rótfestu á nýliðnum árum. Endurnotkun stuðlar að ríkara hringrásarhagkerfi á Íslandi. Endurnotkun er umhverfisvænni og yfirleitt hagstæðari kostur en kaup á nýjum vörum,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.
Segir þar enn fremur að við mælingar og útreikninga á endurnotkun hafi verið notast við samevrópska aðferðarfræði. Endurnotkun hafi verið mæld fyrir vöruflokkana húsgögn, vefnaðarvörur, raftæki, byggingarefni og annað.
Notast var við gögn frá þekktum gagnalindum í bland við hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar og til að reikna það hlutfall var send út könnun til almennings um endurnotkun á þeirra heimili.
Gáfu niðurstöður spurningakönnunarinnar mynd á hlutfall milliliðalausrar endurnotkunar fyrir hvern vöruflokk og var hlutfallið yfir 60% fyrir alla vöruflokka.
„Heildarendurnotkun á Íslandi var 19,93 kg/mann árið 2023. Húsgögn var stærstur hluti af endurnotkun (40%), næst byggingarefni (29%), raf- og rafeindatæki (14%), vefnaðarvara (3%) og annað (14%), miðað við þyngd,“ segir í tilkynningunni.
Kemur fram að þegar vöruflokkarnir voru skoðaðir nánar mátti sjá að föt voru stærsti hlutinn af endurnotkun af vefnaðarvörum en stór markaður hefur myndast á Íslandi fyrir endursölu á fötum og eru notuð föt oft gefins.
Þá var stærstur hluti endurnotkunar á byggingarefnum timbur.
„Sú staðreynd að Íslendingar endurnoti um 20 kg/íbúa af vörum á ári sýnir að hér ríkir endurnotkunarmenning. Stærstur hluti endurnotkunar fer fram í gegnum milliliðalausa farvegi án endurgjalds.
Endurnotkun heldur vörum lengur inni í hringrásarhagkerfinu. Við gagnasöfnun kom í ljós að velta loppumarkaða hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum. Miðað við þessa stigmögnun má ætla að endurnotkunarmarkaðurinn á Íslandi muni einungis styrkjast í náinni framtíð.“