„Guð blessi minningu þeirra sem fórust í Súðavík“

Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, ávarpaði gesti minningarstundar …
Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, ávarpaði gesti minningarstundar í Guðríðarkirkju í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ómar Már Jónsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Súðavík, flutti ávarp við minningarathöfn í Guðríðarkirkju í kvöld til minningar þeirra sem fórust í snjóflóðinu í Súðavík fyrir 30 árum síðan.

Leifur Ragnar Jónsson og María Rut Baldursdóttir, prestar Guðríðarkirkju, þjónuðu við athöfnina. Karl V. Matthíasson fyrrverandi sóknarprestur við kirkjuna þjónaði einnig. 

Kór Guðríðarkirkju söng undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur organista en hún lék einnig á orgel og píanó. Matthías Stefánsson lék á fiðlu.

Forseti Íslands, forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fyrrverandi biskup Íslands, fulltrúar Rauða Krossins og Landsbjargar voru einnig viðstödd athöfnina.

Fjöldi kom saman til að minnast þeirra sem létust í …
Fjöldi kom saman til að minnast þeirra sem létust í flóðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snerti strengi í hjörtum allra landsmanna

Ómar hóf ávarpið á að taka fram að það væri honum mikill heiður að fá að ávarpa samkomuna í kvöld.

„Á stundum sem þessum erum við minnt á mikilvægi minninganna sem tengja fortíð við nútíð – minningar sem veita okkur samhengi og dýpt í okkar daglega lífi. Minningarnar geta verið ljós sem varpar birtu yfir lífsferil okkar, lýsir upp myrkustu stundirnar og vísar okkur leiðina eins og áttaviti í óvissu framtíðarinnar.

Við erum hér saman komin til að minnast þeirra sem fórust í snjóflóðinu í Súðavík fyrir 30 árum síðan, þann örlagaríka dag, 16. janúar 1995. Fjórtán manns létu lífið og atburðurinn markaði djúp spor í hjörtum okkar allra sem tengjumst Súðavík – snerti á vissan hátt strengi í hjörtum allra landsmanna.“

Björn Skúlason og Halla Tómasdóttir voru viðstödd.
Björn Skúlason og Halla Tómasdóttir voru viðstödd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bestu minningar sjómennskunnar að sigla inn til Súðavíkur

Ómar rifjaði í ávarpi sínu upp djúpstæð tengsl sín við Súðavík, en hann er uppalinn í bænum. „Súðavík er ekki bara heimabær minn, heldur hluti af sjálfsmynd minni. Þar sleit ég barnsskónum í þeirri paradís sem Súðavík var fyrir ungan dreng.“

Ómar talaði um að hann hefði ungur farið suður í nám til Reykjavíkur, í Stýrimannaskólann því hann átti sér draum um að verða sjómaður, eins og margir sem hann þekkti, þar á meðal faðir hans.

Ómar vann við sjómennsku og rifjaði upp í ávarpinu góða tíma á sjónum, en hann sagði það hafa staðið sérstaklega upp úr hvernig það var að sigla inn í Ísafjarðardjúp, hvernig það var að fylgjast með fjöllunum rísa tignarlega beggja vegna og sjá inn í Álftafjörðinn og Súðavík birtast.

„Þegar ég sá þorpið fylltist ég þeirri hlýju tilfinningu að vera kominn heim. Þarna var fólkið mitt, fjölskyldan mín og vinirnir.“

„Það sem verra var, mannslíf höfðu tapast“

Ómar rifjaði næst upphinnn örlagaríka dag.

„Það var að kvöldi 15 janúarr 1995 sem við á Bessanum vorum á leið í land í Súðavík, en veðurofsinn var svo mikill að ekki var talið öruggt að leggjast að bryggju og biðum við því fyrir utan Súðavík þar til að veðurofsann myndi lægja.

Einn af skipsfélögum mínum var Hafsteinn Númaso, og fengum við fregnirnar snemma um morguninn 16. janúar, að stórt snjóflóð hefði fallið á miðja Súðavík. Þegar við loks komumst í land, mætti okkur skelfileg sviðsmynd. Hús og heimili höfðu horfið undir snjóflóðið – og það sem verra var, mannslíf höfðu tapast.“

Framlag björgunarsveitar bjartasti punkturinn

Ómar sagði dagana á eftir hafa verið mjög erfiða. Í þeirri miklu sorg sem fylgdi snjóflóðunum í Súðavík var bjartasti punkturin,n að mati Ómar,s framlagbjörgunarsveitar nærliggjandi byggða og annarra sem tóku þátt í björgunarstörfum.

„En við megum ekki gleyma því að harmleikurinn og náin tenging við sorgina höfðu djúp áhrif á marga sem tóku þátt í leit og björgun. Fyrir suma varð þetta atvik til þess að líf þeirra breyttist að eilífu – það sem þau sáu og upplifðu í þessu stóra verkefni var bæði átakanlegt og ógleymanlegt. Ég minnist sérstaklega leitarhundsins Hnotu sem fann Lindu Rut frænku mína, þá fimm ára gamla, eftir að hún hafði legið grafin undir snjó og húsvegg í fimm klukkustundir.

Þegar hún var loksins dregin undan farginu, ósködduð, breiddist ólýsanlegur léttir um björgunarsvæðið. Það voru tár, faðmlög og von sem kviknaði á ný í hjörtum allra sem tóku þátt í björguninni. Sú tilfinning, – vonin – minnir okkur á þann ótrúlega kraft sem býr í því að gefast aldrei upp, sama hversu svart allt kann að virðast.”

Þakklátur fyrir starfið sem sveitarstjóri

Ómar sagði síðan frá því hvað tók við hjá honum. „Eftir flóðið flutti ég suður í áframhaldandi nám og sneri baki við sjómennskunni sem ævistarfi. Það var síðan árið 2002, rúmum sjö árum eftir snjóflóðin, að mér bauðst að snúa aftur vestur og taka við starfi sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.“

Ómar tók þeirri áskorun ásamt eiginkonu sinni, Laufeyju Þóru, og fluttu þau þangað með börnin sín og bjuggu þar í tólf ár.

Hann þakkaði fyrir það einstaka tækifæri og minntist jafnframt annarra snjóflóða sem hafa orðið í gegnum tíðina og þeirra sem létust í þeim.

„Guð blessi minningu þeirra sem fórust í Súðavík og allra sem hafa látið lífið í snjóflóðum. Megi minning þeirra lifa sem viðvörun og hvatning – að tryggja öryggi, styrkja böndin sem tengja okkur saman og skapa framtíð þar sem líf hvers manns er metið af fyllstu virðingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert