Hildur Kristmundsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Raunvísindastofnunar Háskólans og hóf hún störf 3. janúar.
Hildur starfaði áður hjá Íslandsbanka frá árinu 1998, meðal annars sem forstöðumaður á einstaklingssviði. Þá var hún viðskiptastjóri eignastýringar hjá Fossum fjárfestingabanka. Hildur er með Fil.kand í sálfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð, MBA-gráðu frá Háskóla Íslands og MS-próf í alþjóðlegum fjármálum og bankastarfsemi frá Háskólanum á Bifröst. Einnig hefur hún lokið námi í verðbréfaviðskiptum.
Raunvísindastofnun samanstendur af tveimur faglega sjálfstæðum stofnunum, Eðlis-, efna- og stærðfræðistofnun og Jarðvísindastofnun, auk þess sem rekstur Norræna eldfjallasetursins, Örtæknikjarnans og Efnagreiningarsetursins heyrir undir stofnunina.
Hildur kveðst mjög spennt fyrir því að starfa í fjölbreyttu umhverfi Raunvísindastofnunar en þar starfar framúrskarandi vísindafólk að viðamiklum grunnrannsóknum á sviði stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði og jarðeðlisfræði, að því er kemur fram í tilkynningu.