Endurheimt og uppbygging gengur samkvæmt áætlun hjá Toyota á Íslandi eftir að rússneskur hópur gerði tölvuárás á fyrirtækið. Að sögn upplýsingafulltrúa er Toyota á Íslandi með óbreytanleg afrit af gögnunum sem gerir fyrirtækinu kleift að endurbyggja kerfin.
„Þetta gengur bara allt saman vel. Það má segja að endurheimt og uppbygging gangi samkvæmt áætlun. Við erum náttúrulega með þetta í höndum Syndis og þar er aðgerðastjóri sem stýrir aðgerðinni þannig það er allt saman bara unnið samkvæmt bestu þekkingu og reynslu sem við erum afskaplega þakklát fyrir að hafa aðgang að,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi.
Aðspurður segir Páll að ekki sé búið að ná utan um hve mikið af gögnum rússneski hópurinn komst yfir í árás sinni.
Hann nefnir þó að fyrirtækið, líkt og önnur fyrirtæki, taki afrit af gögnum sínum en sé með slíkan búnað að þau séu óbreytanleg. Gerir það fyrirtækinu kleift að endurbyggja kerfin.
„Það skilst mér að sé ekki mjög algengt,“ segir Páll og tekur fram að þetta sé að hjálpa fyrirtækinu gífurlega.
„Við erum mjög ánægð að vera með slíkan búnað. Þetta er að hjálpa okkur, bæði þessi trausta og góða stjórn hjá Syndis og síðan þessi óbreytanlegu gögn.“
Hann segir allt nú vera að stefna í rétta átt en verkefnið sé þó tímafrekt og vandasamt. Hann segir allt stefna í að kerfi fyrirtækisins verði komið í eðlilegt horf á næstu dögum.
Aðspurður segist hann ekki viss um hvort rússneski hópurinn sé enn að herja á tölvukerfi fyrirtækisins.
„En ég held að þeir hafi lítið erindi til þess núna.“