Rétt 30 ár eru í dag, 16. janúar, frá því að snjóflóð féll á Súðavík við Ísafjarðardjúp með þeim afleiðingum að fjórtán létu lífið, þar af átta börn en tólf komust lífs af. Snjóflóðið, sem var um tvö hundruð metra breitt, hreif með sér fimmtán hús í miðju þorpinu við Túngötu, Nesveg og Njarðarbraut en húsin voru flest utan þeirra marka sem skilgreind voru sem hættusvæði vegna snjóflóða.
Að kvöldi sama dags féll annað snjóflóð úr Traðargili sunnar í bænum sem olli eignatjóni en engu manntjóni. Þriðja flóðið féll 19. janúar úr Traðargili og skemmdi eitt hús. Alls eyðilögðust 22 hús í flóðunum.
Fyrsta flóðið féll klukkan 6.25 mánudagsmorguninn 16. janúar 1995. Í Morgunblaðinu næstu daga var rætt við marga íbúa um reynslu þeirra og einn þeirra sagðist hafa vaknað við sprengingu og séð snjóinn koma á móti sér á 100 km hraða. Annar sagðist hafa vaknað við mikinn hvell og talið fyrst að gaskútur hefði sprungið.
Kvöldið áður en snjóflóðið féll, 15. janúar, höfðu Almannavarnir ríkisins verið í sambandi við Súðvíkinga vegna þess að hætta var talin á snjóflóðum. Í Morgunblaðinu 17. janúar er rætt við Sigríði Hrönn Elíasdóttur, sem var sveitarstjóri í Súðavík þegar þessir atburðir gerðust. Hún sagðist hafa verið í sambandi við lögreglustjóra og Magnús Má Magnússon snjóflóðasérfræðing á sunnudagskvöld. Klukkan að ganga tvö um nóttina hefði Magnús Már sagt henni að nú væri að koma sú átt sem væri alverst upp á snjóflóðahættu í Súðavík. Hún hefði þá látið rýma svæðið við Traðargil þar sem talin hefði verið hætta á snjóflóðum.
„Ég var rétt búin að koma fólkinu í hús, mörgum heim til mín, og rétt komin upp í rúm þegar formaður björgunarsveitarinnar hringdi og sagði mér að snjóflóð væri fallið og eitthvað mikið að,“ sagði Sigríður við Morgunblaðið. Hún sagðist hafa hringt strax í lögregluna á Ísafirði og beðið um að allt tiltækt lið yrði haft tilbúið til aðstoðar, bæði læknar og björgunarlið. Björgunarsveitarmenn í Súðavík hefðu farið strax af stað til leitar. Hún sagðist hafa kallað almannavarnanefndina saman en á leiðinni á fundinn hefði hún frétt að skrifstofa Súðavíkurhrepps, sem jafnframt var stjórnstöð almannavarna, hefði lent í flóðinu. Því var sett upp stjórnstöð og bækistöð fyrir björgunarfólk í frystihúsi Frosta hf.
Sigríður lýsti aðkomunni að snjóflóðasvæðinu eins og eftir kjarnorkusprengju. Brak úr húsunum hefði verið niður alla götuna, einnig bílar og slasað fólk. Sést hefði í hendur fólks upp úr snjónum. Slösuð kona hafði komið sér fyrir í bíl sem hafði oltið og gat notað bílflautuna til að láta vita af sér. „Þetta var hreinasta hörmung,“ sagði Sigríður. Flestir hefðu verið sofandi í rúmum sínum þegar flóðið kom og var fólkið því illa klætt, á náttfötum eða nærklæðum einum fata.
Sigríður lét rýma öll hús í Súðavík, kom flestum í frystihúsið en sumir fóru í Eyrardal sem er sveitabær innan við þorpið. Fólkið var síðan flutt út á Ísafjörð og aðeins ungir karlmenn og nokkrar konur urðu eftir vegna leitarstarfanna. Grunnskólinn var tekinn undir björgunarsveitarmenn þegar liðsauki fór að berast og þeir unnu á vöktum við leitina.
Fram kom í viðtali Morgunblaðsins 17. janúar við Guðjón Petersen, þáverandi framkvæmdastjóra Almannavarna ríkisins, að ætlunin hefði verið að huga að því að rýma fleiri svæði í bænum og skoða hvort efstu húsin við Túngötu gætu verið í hættu. En menn hefðu ekkert haft fyrir sér í því að snjóflóð gætu, samkvæmt hættumatinu, fallið svo langt þarna, ekkert hefði sést til svæðisins í fjallinu og þetta hefði ekki verið komið lengra þegar flóðið féll.
Ítarlega umfjöllun um snjóflóðin í Súðavík 1995 má lesa í Morgunblaðinu í dag.