Árið 2019 varaði Umhverfisstofnun sérstaklega við því að þörf væri á skýrari reglum um heimildir stofnunarinnar vegna framkvæmda sem fela í sér breytingar á vatnshlotum, eins og til dæmis í samhengi við vatnsaflsvirkjanir. Í ljósi niðurstöðu héraðsdóms í gær er ljóst að ekki var farið að ráðum stofnunarinnar.
Í minnisblaði sem mbl.is hefur undir höndum, sem barst frá Umhverfisstofnun til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2019, kemur þetta fram en þáverandi ráðherra var Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í gær úr gildi virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar þar sem Umhverfisstofnun var ekki heimilt, að mati dómsins, að veita heimild fyrir breytingu á vatnshloti – hvorki fyrir Hvammsvirkjun né nokkra aðra vatnsaflsvirkjun.
Dómurinn sagði Umhverfisstofnun ekki vera kleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana vegna málsmeðferðar þingsins við innleiðingu Evróputilskipunar.
„Ákvarðanir Umhverfisstofnunar um heimild fyrir framkvæmdir sem fela í sér breytingar á vatnshlotum þannig að umhverfismarkmiðum verði ekki náð kalla á skýrari reglur um hvernig hlutverki Umhverfisstofnunar í ákvarðanatökuferlinu um starfsleyfi sem hafa áhrif á breytingar á vatnshlotum skuli háttað.
Umhverfisstofnun leggur til að settar verði reglur um leyfisveitingu Umhverfisstofnunar fyrir slíkum breytingum og skýrar viðmiðunarreglur um á hvaða forsendum slík leyfi væru veitt og hvaða reglur gildi um áfrýjun slíkra ákvarðana. Einnig þarf að setja reglur um tengsl og upplýsingagjöf vegna starfs- og framkvæmdaleyfa sem falla undir valdsvið annarra stofnanna. Ljóst er að hér er m.a. um að ræða leyfi Umhverfisstofnunar fyrir framkvæmdum sem stofnunin hefur ekki haft leyfisveitingarvald fyrir hingað til.
Þau áhrif sem hér um ræðir geta t.d. verið breytingar vegna vatnsaflsvirkjana, flóðavarna, vegagerðar eða gerðar siglingavega,“ segir í minnisblaðinu sem barst ráðuneytisstjóra 27. september 2019.
Evróputilskipunin sjálf heimilar breytingar á vatnshloti vegna vatnsaflsvirkjana en eftir að hún fór í gegnum þinglega meðferð Alþingis er ekki skýrt að neinum sé heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti vegna vatnsaflsvirkjana.
Héraðsdómur segir að með nefndaráliti umhverfisnefndar um breytingartillögu á frumvarpinu á 139. löggjafarþingi 2010-2011 hafi nefndin sérstaklega tekið fram að breytingar á vatnshloti væru aðeins leyfilegar þegar tilteknir eiginleikar þess hefðu raskast vegna mengunar eða í tengslum við loftslagsbreytingar.
Héraðsdómur metur það sem svo að breytingartillagan hafi verið gagngert lögð fram í þeim tilgangi að taka af öll tvímæli um að heimildin í umræddu lagaákvæði skyldi ekki taka til breytinga á vatnshloti vegna beinna áhrifa frá framkvæmdum.
Héraðsdómur viðurkennir að þetta sé ekki mjög skýrt í lögunum sjálfum en að nefndarálitið tali sínu máli.
„Með minnisblaði þessu vill Umhverfisstofnun vekja athygli ráðuneytisins á því að kveða þurfi skýrar á um leyfisveitingarferla og ákvarðanatöku vegna framkvæmda sem hafa það í för með sér að umhverfismarkmið fyrir vatnshlot nást ekki,“ segir í minnisblaðinu sem heldur áfram:
„Þetta á við t.d þegar um er að ræða nýja framkvæmd sem myndi leiða til breytinga á vatnsgæðum og á vatnsformfræðilegum eiginleikum yfirborðsvatnshlots, svo sem breyting á hæð grunnvatnshlots eða ný sjálfbær umsvif eða breytingar sem hefðu í för með sér að yfirborðsvatnshlot færi úr mjög góðu ástandi yfir í gott ástand eða úr góðu ástandi yfir í slæmt.“
Fyrsta vatnaáætlun Íslands tók gildi árið 2022 og þar með virkjaðist málsgreinin í frumvarpinu sem var byggð á tilskipuninni.
Umhverfisstofnun lagði til í minnisblaðinu að ráðuneytið myndi fara í vinnu við nánari útfærslu ákvæðisins með reglugerð og að stofnaður yrði hópur sem ynni slíka vinnu. Útfærðar yrðu þær kríteríur sem lagðar yrðu til grundvallar um hvaða framkvæmdir kæmi til greina að heimila.
„Umhverfisstofnun bendir á að ekki er að finna skýra reglugerðarheimild í lögunum og því þyrfti að gera lagabreytingu til að hægt sé að fara í þá vinnu sem Umhverfisstofnun leggur hér til,“ segir í minnisblaðinu frá árinu 2019.