Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst hafa tekið ákvörðun fyrir rúmlega tveimur árum að hún myndi bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum þegar Bjarni Benediktsson myndi ákveða að hverfa á braut.
Þetta kom fram í Samtalinu, þætti á vegum Vísis.
„Í rauninni tók ég ákvörðun fyrir meira en tveimur árum örugglega, að ég myndi bjóða fram krafta mína þegar Bjarni Benediktsson myndi ákveða að hætta sem formaður. Ég hef ekki tekið nýja ákvörðun síðan þá,“ sagði Þórdís en hún hefur ekki tilkynnt um formannsframboð.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti 6. janúar að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Landsfundur fer fram dagana 28. febrúar til 2. mars.
Þórdís hefur verið varaformaður flokksins í sjö ár en hún viðurkennir að það væri stór ákvörðun að fara í formannsframboð, en hún hefur ekki tilkynnt um neitt slíkt.
Blaðamaður Vísis spurði hvort að það yrði stefnubreyting fyrir Þórdísi ef hún myndi ekki bjóða sig fram í formann og þá svaraði Þórdís:
„Það yrði það. En ég segi líka, á þessum sjö árum hefur mjög margt breyst og bara á undanförnum tveimur árum hefur mjög margt breyst.“