Mannanafnanefnd hefur hafnað beiðni um eiginnafnið Hrafnadís. Í úrskurði nefndarinnar segir að nefndin líti svo á að nafnið sé afbökun á nafninu Hrafndís og fari þannig í bága við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, segir úrskurð nefndarinnar vera sérkennilegan.
„Þetta er mjög sérkennilegur úrskurður sem ég get ekki kallað annað en rugl. Í samsettum orðum getur fyrri liður ýmist verið stofn, eins og í Hrafndís, eða eignarfall - annaðhvort eintölu eða fleirtölu. Fjölmörg dæmi eru um tvímyndir og fráleitt að kalla aðra þeirra „afbökun“ af hinni. Ég kannast ekki við að einhverjar sérstakar reglur gildi um mannanöfn sem banni að fyrri liður þeirra sé í eignarfalli fleirtölu,“ skrifar Eiríkur inn í Málspjallið á Facebook.
Í úrskurði mannanafnanefndar segir að eiginnafnið Hrafnadís uppfylli skilyrði eitt, þrjú og fjögur, en samkvæmt lögunum þurfa ný eiginnöfn að uppfylla öll fjögur skilyrði 5. greinar laga um mannanöfn. Skilyrðin eru:
„Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Hrafnadísar, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama,“ segir í úrskurðinum.
Þá segir þar enn fremur að Hrafnadís reyni á skilyrði númer tvö og er vísað í greinargerð með lögum um mannanöfn.
„Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Enn fremur segir að skilyrðið komi í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur,“ segir í úrskurðinum.
Þannig kemst nefndin að því að Hrafnadís sé afbökun á nafninu Hrafndís og fari gegn meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns.
„Sú „regla“ er bara tilbúningur nefndarinnar og mér finnst hún fara langt út fyrir öll eðlileg mörk í túlkun sinni á því hvað „brjóti í bág við íslenskt málkerfi“. Hvað með nöfnin Eyjalín, Reykjalín, Alparós og Rósalind til dæmis - er fyrri liður þeirra ekki í eignarfalli fleirtölu?“ skrifar Eiríkur um þessa afstöðu mannanafnanefndar.
Hann lýkur færslu sinni á að segja að löngu sé kominn tími á að breyta lögum um mannanöfn og rifjar upp að Viðreisn hafi fyrir fimm árum lagt fram frumvarp þess eðlis sem var fellt.
„Það verður að vona að flokkurinn sé enn sama sinnis og núverandi dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp að nýjum mannanafnalögum hið fyrsta,“ skrifar Eiríkur.