Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir að framkvæmdir á Sæbrautarstokk ættu að geta hafist árið 2027. Þá nefnir hann að erlendir verktakar gætu mögulega sýnt útboði á brúarsmíði Fossvogsbrúar áhuga.
Framkvæmdir á Fossvogsbrú hófust í dag og var Davíð á meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustungurnar.
Samkvæmt samgöngusáttmálanum er næsta verkefni Sæbrautarstokkurinn og segir Davíð að nú sé verið að bíða eftir að Reykjavíkurborg klári skipulagsmálin í tengslum við stokkinn en gert er ráð fyrir að stokkurinn verði tilbúinn árið 2030.
„Þegar það er komið, vonandi á þessu ári, þá er hægt að fara í verkhönnun sem tekur kannski 1-2 ár þannig að ég myndi segja að framkvæmdir ættu að geta hafist þar í kringum 2027.“
Þá segir Davíð að næstu framkvæmdir í borgarlínuverkefninu verði á Nauthólsvegi sem mun liggja frá Fossvogsbrúnni að Valssvæðinu.
„Það eru mjög miklar umferðatafir þar í dag á háannatíma út af traffíkinni frá Háskólanum í Reykjavík.“
Hann segir að borgarlínan sjálf muni ekki byrja að keyra á svæðinu fyrr en 2031 en nefnir að Fossvogsbrúin muni nýtast vel um leið og hún verði tilbúin fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem og strætó, en miðað er við að verklok brúarinnar verði árið 2028.
Kostnaðaráætlun var komin upp í 311 milljarða í uppfærðum samgöngusáttmála, fyrir stofnvegi, borgarlínu og stíga. Hefur sú tala tekið einhverjum breytingum?
„Nei, við erum enn þá með óbreyttar áætlanir frá því sem kynnt var í fyrra í uppfærðum samgöngusáttmála, enda erum við þar komin með mjög áreiðanlegar áætlanir sem eru gerðar eftir alþjóðlega viðurkenndum aðferðum.
En áætlanir eru auðvitað áætlanir og eitthvað mun hækka og eitthvað mun lækka. En það verður ekki nein stökkbreyting á þessum áætlunum aftur eins og hefur verið.“
Það var talað um það í ágúst í fyrra að klára fyrsta fasa borgarlínunnar árið 2027 - hvað er það sem hefur valdið seinkunum?
„Það er lengra síðan það var talað um 2027. Frá því í fyrra höfum við talað um að fyrsta lota borgarlínunnar verði tilbúin 2031,“ segir Davíð og heldur áfram:
„Því miður voru bara upphaflegar áætlanir ekki mjög raunhæfar. Núna erum við komin með raunhæfari áætlanir sem við teljum okkur geta staðið við, en það er betra í svona stórum framkvæmdum að gefa sér góðan tíma í undirbúningsferlið heldur en að reyna að láta framkvæmdirnar ganga hratt fyrir sig.“
Miðað við að útboðið vegna jarðvegsvinnunnar var 30% undir kostnaðaráætlun, hefur þú væntingar til þess að heildarkostnaður brúarinnar verði þá einnig ódýrari?
„Ég vona það. Það er allavega ljóst að hér sparast 300 milljónir strax með þessum fyrri áfanga.“
Segir Davíð að kostnaðurinn muni skýrast þegar tilboð fara að berast í brúarsmíðina sjálfa en stefnt er á að bjóða hana út á næstu vikum eða mánuðum.
„Það verður gaman að sjá hvernig það kemur út og við munum bjóða það út með alþjóðlegum stöðlum þannig það kann vel að vera að einhverjir erlendir verktakar muni líka sýna því áhuga. Það verður mjög fróðlegt að sjá það.“