Grímsvatnahlaup í rénun

Engin merki eru um aukna jarðskjálftavirkni eða gosóróa í Grímsvötnum.
Engin merki eru um aukna jarðskjálftavirkni eða gosóróa í Grímsvötnum. Kort/Map.is

Frá því í gær hefur órói sem mælist á jarðskjálftastöðinni á Grímsfjalli farið hægt lækkandi.

Fyrripart þriðjudagsins 15. janúar hækkaði óróinn nokkuð skarpt og náði hámarki aðfaranótt 16. janúar. Þessi hækkun í óróa tengist jökulhlaupinu sem nú stendur yfir og endurspeglar líklega aukningu í jarðhitavirkni vegna þrýstiléttis eftir að töluvert rúmmál vatns hefur farið úr Grímsvötnum, að því er Veðurstofa Íslands greinir frá. 

Þá segir að vatnsmagn í Gígjukvísl virðist sömuleiðis, miðað við vatnshæðarmælingar og útbreiðslu árinnar samkvæmt vefmyndavél, hafa farið hægt minnkandi síðasta rúman sólarhringinn en hæsta vatnshæðarmælingin var síðdegis á miðvikudag.

„Út frá þessum athugunum má álykta að hámark jökulhlaupsins hafi verið á miðvikudag í Gígjukvísl og jafnvel eins snemma og á þriðjudaginn úr Grímsvötnum. Óvissa ríkir um tímasetningu hámarksrennslis úr Grímsvötnum, þar sem breytingar í óróamælingum vegna aukinnar jarðhitavirkni komu fram fyrripart miðvikudags,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert