„Það er svo mikilvægt að tala um tilfinningar sínar því um leið og maður er farinn að tala um tilfinningar þá er eins og maður nái einhvern veginn tökum á þeim,“ segir Magnús Erlingsson, prestur á Ísafirði, sem var í hópi björgunarmanna sem kom með djúpbátnum Fagranesi frá Ísafirði eftir snjóflóð í Súðavík árið 1995.
Þegar á staðinn var komið reyndi hann eins og hægt var að vera fólki innan handar og segir að ekkert í guðfræðináminu hafi getað undirbúið hann undir þær aðstæður sem hann steig inn í. Bæði eftir snjóflóðið í Súðavík 16. janúar 1995 og á Flateyri þann 26. október árið 1995.
Hann segist hafa þurft á sálfræðiaðstoð að halda eftir upplifunina en líklega hafi hann ekki áttað sig á því almennilega fyrr en í seinni tíð.
Magnús var 35 ára árið 1995 og hafði tekið við sem prestur á Ísafirði árið 1991, þremur og hálfu ári fyrir fyrra snjóflóðið.
Hann er einn þeirra viðmælanda sem Morgunblaðið og mbl.is ræddi við í tilefni af því að 30 ár eru liðin frá því mannskætt snjóflóð féll í Súðavík. 14 manns létust og þar af átta börn.
Magnús kom til Súðavíkur með bátnum um klukkan 10 um morguninn ásamt björgunarfólki og dvaldi í sólarhring áður en hann fór aftur til Ísafjarðar þangað sem flestir Súðvíkingar voru færðir.
„Ég byrjaði á því að taka utan um fólk og ræða við Súðvíkinga sem höfðu verið í leit og höfðu upplifað það að horfa upp á bæinn sinn í rúst og jafnvel finna einhverja látna í þessu braki. Um kvöldið og nóttina vorum við svo með svokallaða viðrunarfundi þar sem björgunarsveitarmenn sem höfðu verið við leit gátu sagt frá því sem þeir höfðu upplifað og voru að hugsa,“ segir Magnús.
„Við prestarnir vorum líka með fólkinu þegar það fór að sjá látna ástvini sína. Það var mikilvægt fyrir fólk að halda á börnunum, jafnvel klæða þau í föt en þetta voru mjög erfiðar stundir. Fram að þessu hafði maður alltaf hugsað með sjálfum sér að slys verði úti á sjó, slys verði úti á vegum en maður hélt alltaf að maður væri öruggur heima hjá sér. Fólk hafði jafnvel fært börnin inn í stofu á dýnu eða í eigið rúm úr hjónarúmi. Sumir fóru að ásaka sig og hugsuðu; af hverju gerði ég þetta svona, af hverju tók ég ekki meira mark á veðrinu,“ segir Magnús.
Þeir viðmælendur sem Morgunblaðið og mbl.is ræddi við í heimsókn sinni til Súðavíkur og Ísafjarðar töluðu allir mjög fallega um Magnús. Hann er sagður góður maður og heill og augljóslega hláturmildur. Margir minnast hans með hlýhug frá þessum erfiðu tímum. Þegar blaðamaður ber þessi orð undir hann þá vill Magnús sem minnst gera úr því og beinir orðunum annað.
„Veðrið var með algjörum ólíkindum og ég man ekki eftir öðru eins þessa daga. Þegar verið var að aka okkur frá sjúkrahúsinu á Ísafirði og heim þá fórum við á snjótroðara. Þeir rötuðu eftir einhverju gps-tæki og tilkynntu mér þegar við vorum komnir heim. Nema ég sá ekkert hús. Svo hálf drógu þeir mig yfir einhverja snjóskafla að húsinu heima. Það var varla stætt úti, snjóbylurinn var svo mikill,“ segir Magnús.
Magnús var einn þriggja presta sem sinntu minningarstund í íþróttahúsinu á Ísafirði laugardaginn 21. janúar.
„En það var bara ein jarðarför í Súðavík því fólkið sem lenti í þessu hafði fengið alveg nóg af fjöllum og fór flest suður til Reykjavíkur. Ein jarðarförin var að vísu í Ögri og ég var þar en allar hinar útfarirnar voru í Reykjavík,“ segir Magnús.
Fyrst um sinn segir Magnús að hann hafi farið og heimsótt fólkið sem fór til Reykjavíkur til að halda í tengslin. Smám saman rofnuðu þau þó með tímanum.
Nú fékkst þú þetta verkefni eða hlutverk upp í hendurnar með litlum fyrirvara eins og aðrir. Þurtir þú að taka þig sérstaklega saman í andlitinu áður en þú mættir á svæðið?
„Nei, ég hugsaði ekkert um það, ég bara fór inn í þetta og reyndi að sinna þessu eins og ég hélt ég ætti að gera það. Þú hafðir nær engan tíma til að staldra við og hvert atvikið tók við af öðru. En þetta var álag, vissulega. Til að lýsa því finnst mér ágætt að taka dæmi af því þegar ég var skömmu síðar að sækja bílinn á verkstæði á Ísafirði eftir smurningu og hafði gleymt veskinu. Ég sagði við manninn sem gerði við bílinn að ég myndi koma síðar til að borga. Svo hitti ég þennan sama mann um sumarið sem minnti mig á að hann hafði gert við bílinn. Það var því töluvert álag á manni en maður tók ekki eftir því. En álagið birtist t.d. í svona hlutum, gleymsku.“
Var eitthvað í þeim guðfræðum sem þú lærðir sem getur búið mann undir að koma inn í slíkar aðstæður?
„Nei, ég held ekki. Jafnvel þó þú myndir lesa um svona þá er allt annað að upplifa þetta. Sársauki fólks hefur svo mikil áhrif á mann, þessi grátur og maður finnur hvernig hjartað er níst í fólki eftir að hafa misst börnin sín. Þetta eru svo miklar hörmungar. Fjórtán manneskjur deyja og svo endurtekur sagan sig á Flateyri. Mér er minnistætt þegar við fórum með bátnum á Flateyri þá grét einn björgunarmaðurinn í bátnum, vitandi hvað hann var að fara út í. Við vorum ekkert svo margir í þeim bát því margir einfaldlega treystu sér ekki aftur í svona aðstæður,“ segir Magnús.
Þurftir þú sjálfur á sálrænni aðstoð að halda?
„Ég hefði örugglega þurft að fá sálfræðiaðstoð en það var kannski minna verið að velta slíkum hlutum fyrir sér þarna. Tveimur árum seinna kom að vísu manneskja sem var með okkur í handleiðslu. Þetta var félagsráðgjafi á vegum kirkjunnar. Þar spjölluðum við aðeins um þetta líka. Það er ákveðin huggun í því að tala um það sem er erfitt. Þess vegna geta allir í raun huggað hvern annan. Það er svo mikilvægt að tala um tilfinningar því um leið og maður er farinn að tala um tilfinningar þá er eins og maður nái einhvern veginn tökum á þeim,“ segir Magnús og heldur svo áfram.
„Auðvitað hefði maður þurft að tala við einhvern. Tannlæknirinn minn sagði við mig næst þegar ég hitti hann að ég væri farinn að gnísta saman tönnunum. Þá lét hann mig hafa svona bithlíf og ég varð gráhærður nánast á einni nóttu. En þegar maður er svona ungur og hress þá ætlar maður að standa sína pligt. Ég held að það hafi líka hjálpað til að á þessum tíma var ég á fullu í fótbolta og íþróttum. Þar fékk ég útrás,“ segir Magnús.
Hann bætir því við að hann telji það hafa hjálpað sér að leita til æðri máttar og bænin hafi gert honum gott í gegnum atburðarrásina.
Hann segir menn leita ýmissa leiða til að fá útrás, þó að hann hafi fundið sig í íþróttum og öðru þá sé það þekkt leið til útrásar að leita í áfengi á svona stundum.
Leitaðir þú í það?
„Nei!“ segir Magnús og hlær við og virðist finnast spurningin fráleit.
Gréstu sjálfur á þessum tíma?
„Nei, en ég var með kökk í hálsinum nær allan tímann,“ segir Magnús hugsi.
„En ég grét þegar ég horfði á heimildarmyndina Fjallið öskrar sem sýnd var nýlega. Þá er maður kannski afslappaðri og lengra liðið frá,“ segir Magnús.