„Það er óþolandi að vakna við þetta, nánast alla daga vikunnar eins og verið hefur að undanförnu. Ég sendi tölvupóst til Brynjólfs Þorkelssonar í Eignabyggð á sunnudaginn þar sem ég lagði fram alvarlega kvörtun yfir því að verið væri að vinna á sunnudögum, með stórvirkum vinnuvélum með tilheyrandi hávaða, við húsendann hjá okkur. Þessum tölvupósti hefur aldrei verið svarað, ónæðið heldur áfram og byrjaði nú síðast klukkan 7 í morgun.“
Þetta segir Kristján Hálfdánarson, formaður húsfélagsins að Árskógum 7, vegna jarðvegsframkvæmda við Álfabakka 2 sem staðið hafa yfir síðan um helgina.
„Þeir byrja á morgnana klukkan 7 og hávaðinn glymur í tvo klukkutíma. Ég skil ekki af hverju þeir eru að þessu á morgnana því það eru ekki allir í þessu húsi sem fara svo snemma á fætur. Hávaðinn af þessu er skelfilegur því þetta eru stórar vélar sem virðast vera að skafa klöppina og þetta sker í eyrun.“
Kristján, sem er ketil- og plötusmiður og bjó í Danmörku í 14 ár, segist hafa unnið í ýmsum bæjarfélögum í tengslum við sína vinnu þar.
Það var alveg sama í hvaða krummaskuð maður kom, þarna í Danmörku, þau voru öll byggð þannig upp að annars vegar var byggðarkjarni og hins vegar var iðnaðarhverfi. Stefnan er skýr um það að blanda ekki saman iðnaðarhúsnæði og íbúabyggð. Fram að þessu hefur þetta líka verið með þessum hætti í Reykjavík og því er þessi bygging þvert á þá stefnu sem hér hefur verið tíðkuð fram að þessu, rétt eins og í Danmörku.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag