Leitað er að nýjum fararstjórum með hugmyndir

Líf og leikur í Palermo á Sikiley, sem er vinsæll …
Líf og leikur í Palermo á Sikiley, sem er vinsæll staður. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Fjöldi fólks hefur góða þekkingu á tilteknum svæðum og er áfram um að kynna þau öðrum. Okkur er í mun að komast í samband við þetta fólk og nýta krafta þess ef hugmyndir eru framkvæmanlegar,“ segir Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri Úrvals-Útsýnar.

Ferðaskrifstofan auglýsti á dögunum eftir fólki sem kynni að vera með góðar hugmyndir að áhugaverðum áfangastöðum sem það vildi setja upp leiðangur til og vera í hlutverki fararstjórans. Viðtökur hafa verið góðar, um 50 erindi voru komin í hús nú um miðja vikuna og áfram er hægt að stimpla sig inn.

Evrópa og Asía

Sólarferðir eru hryggjarstykki í starfsemi Úrvals-Útsýnar. Sérferðir eru einnig margar og hvað þær varðar þarf alltaf vera með eitthvað nýtt í boði. Kvikmyndir, bækur eða efni í fréttum getur alltaf vakið áhuga fólks á löndum og ákveðnum stöðum.

„Við höfum áður bryddað upp á því að auglýsa eftir fólki með góðar hugmyndir og reynslan er góð. Með þessu erum við meðal annars að breikka vöruframboð okkar en starfsemi ferðaskrifstofu þarf sífellt að vera í þróun,“ segir Þórunn.

Óskað er eftir greinargóðri lýsingu á hvernig ferð fólk vill setja upp. Hvort hún verður að veruleika ræðst af líklegri eftirspurn, verði og mati kunnáttufólks á því hvað viðskiptavinir séu líklegir til að vilja.

Ferðir um lönd eins og Ítalíu, Spán, Portúgal og Grikkland hafa oft verið nefndar í þeim erindum sem Úrvali-Útsýn hafa verið send síðustu daga. Margir hafa líka áhuga á að efna til Asíuferða, svo sem til Balí, Taílands og Indlands. Þá kemur Tyrkland sterkt inn, en þar eru Íslendingum nú að opnast áhugaverðir ferðakostir með beinu flugi Icelandair til Istanbúl sem hefst næsta haust.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert