Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórana á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi aflýsir óvissustigi Almannavarna sem sett var á á þriðjudag vegna aukinnar skjálftavirkni í Bárðarbungu.
Mikil skjálftavirkni varð undir Bárðarbungu á þriðjudaginn og mældust tugir skjálfta, sá stærsti 5,1 að stærð.
Í tilkynningu ríkislögreglustjóra er vísað til þess að lítil skjálftavirkni hafi mælst í Bárðarbungu síðan á þriðjudagsmorgun. Sú skjálftahrina var sú kröftugasta sem mælst hefur síðan að síðustu eldsumbrot urðu í Bárðarbungu frá 2014 til 2015 og eldgos varð í Holuhrauni. Hreyfingar í jarðskjálftunum samræmast aukinni þenslu vegna kvikusöfnunar sem hefur staðið yfir frá síðustu eldsumbrotum 2015.
Nokkur óvissa er um hver þróun þessarar virkni verður á næstunni og ekki er útilokað að jarðskjálftavirkni á svæðinu taki sig aftur upp. Segir í tilkynningunni að áfram verði fylgst vel með.
Líkt og fjallað hefur verið um í vikunni er Bárðarbunga öflugasta eldstöð Íslands, en eldstöðvakerfi hennar er um 190 km að lengd. Er það eina kerfið á landinu sem á uppruna sinn í bæði Norður- og Austurgosbeltinu.