Ríkislögreglustjóri var U.S. Marshals Service til fulltingis í máli barnanna

„Íslensk lögregla hafði umsjón með aðgerðum innan landsins, þar sem …
„Íslensk lögregla hafði umsjón með aðgerðum innan landsins, þar sem hún hefur lögsögu,“ segir Helena Rós Sturludóttir samskiptastjóri af samstarfi lögreglunnar við U.S. Marshals Service hjá bandaríska dómsmálaráðuneytinu í máli tveggja bandarískra barna og móður þeirra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra veitti U.S. Marshals Service aðstoð í málinu sem þú vísar til,“ svarar Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri embættis ríkislögreglustjóra, er mbl.is þýfgar hana um fregnir af samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við framangreinda deild bandaríska dómsmálaráðuneytisins, U.S. Marshals Service, í máli tveggja barna sem reyndust vera hér á landi ásamt móður sinni í trássi við lög.

Eins og fram kom í frétt hér á mbl.is í gærkvöldi hafði lögregla í Canton í Ohio leitað barnanna, sem eru átta og níu ára að aldri, frá því í októberlok og að lokum rakið slóð þeirra og móður þeirra, sem glímir við veikindi, til Denver í Colorado, þaðan til London, Jersey-eyjar og að lokum til Reykjavíkur þar sem lögreglan hafði uppi á fjölskyldunni á hóteli.

Löng hefð fyrir góðu samstarfi

„Íslensk lögregla hafði umsjón með aðgerðum innan landsins, þar sem hún hefur lögsögu,“ segir Helena Rós frá og kveður bandarísk yfirvöld hafa látið þeim íslensku upplýsingar í té og átt samstarf við hérlenda lögreglu fyrir milligöngu alþjóðalögreglunnar Interpol, alþjóðlegan samstarfsvettvang lögregluyfirvalda.

Aðspurð kveður samskiptastjórinn engan formlegan tvíhliða samning fyrir hendi milli íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda, löng hefð sé hins vegar fyrir góðu samstarfi milli íslenskra og bandarískra lögregluyfirvalda í málum sem þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert