Aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) eru ekki meira forgangsmál ríkisstjórnarinnar en svo að þær verða ekki hafnar í upphafi kjörtímabils og ekki heldur án þess að þjóðin sé spurð álits. Þá felist engin stefnubreyting í heimsóknum forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar til stækkunarstjóra sambandsins.
Þetta segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fór til Brussel á fund stækkunarstjóra ESB og sagði talsmaður hans í kjölfarið að aðildarumsókn Íslands væri virk þrátt fyrir að Ísland hafi dregið umsókn sína til baka á sínum tíma.
Kristrún sagði utanríkisráðherra fyrst og fremst hafa farið til að koma á eðlilegum samskiptum nýrrar ríkisstjórnar við bæði ESB og EES.
„Ég mun sjálf fara í svona ferð sem er bara partur af prógraminu þegar kemur að því að styrkja tengslin, að fólk kynnist og viti af hvort öðru.“
Þannig segir hún enga sérstaka stefnubreytingu felast í því ferðalagi. Útgangspunkturinn hafi einnig að verulegu leyti verið staðan í Úkraínu, varnarmál og fleira í þeim dúr.
„Vissulega var þjóðaratkvæðagreiðslan til umræðu, sem er mjög eðlilegt, og þau vita af því að við stefnum að því að fara í slíka atkvæðagreiðslu í síðasta lagi 2027. Í raun er ekkert meira um það að segja á þessum tímapunkti.“
Kristrún segir aðildarviðræður og upphaf þeirra háðar því að þjóðin vilji þær. Málum sé stillt upp með þessum hætti vegna þess að rúmur tími eigi að vera til umræðu og þjóðin eigi að hafa tíma til að ákveða sig.
Lítur þú svo á að samningaviðræður standi enn yfir?
„Ég hlusta bara á það sem hefur verið sagt að hálfu ESB og víða annars staðar að aðildarumsóknin hafi aldrei verið tekin til baka.“
Spurð um samningsmarkmið og sérstaklega þá kafla sem búið var að loka segir Kristrún ekki tímabært að tjá sig um slíkt. Fyrsta skrefið sé að fá umræðu um hvort fólk vilji halda áfram í þessa vegferð og síðan verði staðan tekin.
Spurð sérstaklega út í sjávarútvegsstefnuna og áhrif inngöngu í ESB á hana segir Kristrún þá umræðu ekki tímabæra. Hins vegar tekur hún það fram að hún myndi aldrei stýra ríkisstjórn sem setti hagsmuni Íslands á vondan stað þegar kemur að aðalatvinnugreinum þjóðarinnar.
„Þannig að svona samningar verða alltaf rýndir með það að sjónarmiði,“ segir Kristrún.