Tvö bandarísk börn fundust á Íslandi

Lögreglan á Íslandi fann börnin á hóteli í Reykjavík ásamt …
Lögreglan á Íslandi fann börnin á hóteli í Reykjavík ásamt móður sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvö bandarísk börn, sem lögreglan í Canton í Ohio hefur leitað að síðan 25. október 2024, fundust í Reykjavík 10. janúar.

Börnin eru 8 og 9 ára gömul að því er fram kemur í tilkynningu frá sérstakri lögregludeild dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna (e. U.S. Marshals Service).

Þar segir enn fremur að móðir barnanna, sem er 34 ára, hafi verið andlega veik, hætt að taka lyfin sín og yfirgefið íbúð sína. Þá hafi börnin hætt að mæta í skólann.

Barnaverndaryfirvöldum í Canton hafi verið gert viðvart sem að lokum lét lögreglu og sérstaka lögregludeild dómsmálaráðuneytisins vita.

Frá Canton til Denver

Slóð móðurinnar leiddi lögreglu fyrst til Denver í Colorado-ríki. Komst lögregla þá á snoður um að hún hefði flogið með börn sín tvö til Lundúna og því næst til eyjarinnar Jersey.

Þaðan hafi hún svo farið til Íslands og komið sér fyrir í litlum smábæ. Íslenska lögreglan fann hana svo með börnin á hóteli í Reykjavík.

Börnin voru í umsjón barnaverndaryfirvalda hér á Íslandi og biðu þess að nákominn ættingi kæmi til að sækja þau. Móðir barnanna hefur verið lögð inn á viðeigandi sjúkrastofnun og verður þar uns hún hefur náð heilsu til að ferðast aftur til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert