Geitdalsá verður stífluð í farvegi sínum og vatni veitt í sjö kílómetra langri pípu að stöðvarhúsinu. Síðan mun allt vatn sem fer í gegnum stöðvarhúsið skila sér aftur í ána örlítið neðar,“ segir Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro hf. sem er eigandi Geitdalsárvirkjunar ehf., framkvæmdaraðila nýrrar virkjunar í Geitdalsá í Múlaþingi.
Skírnir segir uppsett afl virkjunarinnar verða 9,9 MW og orkugetu um 56 GWst á ári. Fallhæðin verði 250 metrar og lónhæð á bilinu 445-457 m.y.s. Flatarmál uppistöðulónsins sem kallað er Hesteyrarlón verður 36 hektarar við hæsta vatnsborð og 10 hektarar við lægsta vatnsborð.
„Gert er ráð fyrir að allt efni í stífluna verði hægt að vinna úr námum í nágrenninu. Fallpípan, sem flytur vatnið frá inntakslóni að stöðvarhúsi, verður niðurgrafin plasttrefjapípa, tæplega 7 kílómetra löng.“
Í umhverfismatsskýrslunni sem Cowi vann fyrir framkvæmdaraðila kemur fram að þvermál vatnspípunnar verði á bilinu 1,5-1,7 metrar. Stöðvarhúsið verður ofanjarðar, á einni hæð.
Undir og frá stöðvarhúsinu verður 20 metra langur niðurgrafinn og steyptur frárennslisstokkur, sem veitir vatninu frá hverflinum út í 55 metra frárennslisskurð, niður í Geitdalsá.
Skriðdalur liggur til suðurs úr Fljótsdal. Innst í dalnum skiptir fjallið Þingmúli Skriðdal upp í tvo dali. Sá austari er Suðurdalur, en þjóðvegurinn upp á Öxi liggur um þann dal. Vestari dalurinn er Norðurdalur og Geitdalur þar innarlega. Um dalinn rennur samnefnd á þar sem virkjunin er áformuð.
Geitdalsá er dragá sem á upptök sín á hálendinu. Megininnrennslið er úr Leirudalsá og við ármót Leirudalsár og Geitdalsár rennur sú síðarnefnda til norðurs niður Geitdal, þaðan niður Norðurdal og sameinast svo Múlaá í Skriðdal. Saman mynda þessar ár Grímsá, sem rennur út í Lagarfljót rúmum 6 kílómetrum frá Egilsstöðum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 16. janúar.