Úthluta lóð undir þjóðarhöll

Ný þjóðarhöll á að rísa milli Laugardalshallar og göngu- og …
Ný þjóðarhöll á að rísa milli Laugardalshallar og göngu- og hjólastíga sem liggja meðfram Suðurlandsbraut. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur í dag að úthluta Þjóðarhöll ehf. byggingarrétt á lóð Laugardalshallar við Engjaveg. Heildargreiðsla fyrir byggingarrétt og gatnagerðargjöld eru rúmir tveir milljarðar króna, en félagið er í 55% eigu ríkisins og 45% eigu borgarinnar.

Fær Þjóðarhöll ehf. úthlutaðan byggingarrétt á reit F innan lóðarinnar að Engjavegi 8. Kaupir félagið byggingarrétt lóðarinnar fyrir rúmlega einn og hálfan milljarð, en ofan á það bætast tæplega 500 milljónir í gatnagerðargjöld.

Með þessu er lóðin stækkuð úr 30.260 fm í 35.030 fm, en um er að ræða deiliskipulagsbreytingu.

Á þjóðarhöllin að vera á milli Laugardalshallar og stofnstíga meðfram Suðurlandsbraut. Lóðin stækkar til suðurs í átt að Suðurlandsbraut og að stíg sem liggur norðan æfingasvæðis fyrir fótbolta á milli Suðurlandsbrautar og Engjavegar. Á lóðinni er heimilt að byggja allt að 19.000 m2. 

Lóð þjóðarhallar sést hér á teikningu næst Suðurlandsbrautinni.
Lóð þjóðarhallar sést hér á teikningu næst Suðurlandsbrautinni.

Byggir lóðaúthlutunin á samkomulagi frá í janúar í fyrra á milli íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar.

Þjóðarhöllin er hugsuð sem þjóðarhöll fyrir innanhúsknattíþróttir og stórviðburði eins og tónleika og sýningar. 

„Þjóðarhöll mun uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðakeppni í dag. Ráðist verður í hönnun á nýju mannvirki, uppbyggingu til framtíðar sem eykur samkeppnishæfni borgar og þjóðar á alþjóðavísu. Hjarta íþróttastarfs á Íslandi verður áfram í Laugardalnum með stórbættri aðstöðu fyrir alla notendur og almenning og samnýtingu á þeim mannvirkjum sem fyrir eru,“ segir í tilkynningu á vef borgarinnar.

Haft er eftir Einari Þorsteinssyni borgarstjóra að þjóðarhöllin muni stórbæta aðstæður fyrir keppnisíþróttir og börnin sem æfa hjá Ármanni og Þrótti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert