Andlát: Þórhallur Ásmundsson

Þórhallur lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 14. janúar síðastliðinn.
Þórhallur lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 14. janúar síðastliðinn. Ljósmynd/Aðsend

Þórhallur Ásmundsson, blaðamaður og fv. ritstjóri Feykis, lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 14. janúar síðastliðinn, 71 árs að aldri.

Þórhallur fæddist 23. febrúar 1953 í Fljótum í Skagafirði og ólst upp á Austari-Hóli í Flókadal. Foreldrar hans voru Ásmundur Frímannsson og Ólöf S. Örnólfsdóttir.

Þórhallur fluttist til Sauðárkróks 1974 og lærði þar húsasmíðar hjá Byggingarfélaginu Hlyn. Hann hóf snemma að iðka knattspyrnu, lék lengst af með Tindastóli, þó fyrst með Völsungi á Húsavík, og í lok ferilsins með Neista á Hofsósi, Þrym á Sauðárkróki og GKS á Siglufirði, en með því félagi spilaði hann sinn síðasta deildarleik sumarið 2004, 51 árs að aldri.

Þórhallur var einnig öflugur skíðagöngumaður og keppti hér á landi og erlendis fram á efri ár, m.a. í Vasa-göngunni í Svíþjóð. Hann lét snjóleysi ekki stöðva sig á sumrin og tók þá fram hjólaskíðin.

Þórhallur setti hamarinn á hilluna 1986 og réðst til starfa sem blaðamaður á Sauðárkróki fyrir dagblaðið Dag. Þórhallur hafði þá um tíma skrifað um íþróttir í héraðsfréttablaðið Feyki á Sauðárkróki og smitaðist þar af blaðamannabakteríunni.

Hjá Degi var Þórhallur í tvö ár, þar til hann tók við sem ritstjóri Feykis 1988 og var í því starfi allt til 2004. Þá fluttist hann til Siglufjarðar og tók að sér ritstjórn bæjarblaðsins, Hellunnar. Haustið 2007 flutti hann suður á bóginn, til Akraness, og starfaði sem blaðamaður á Skessuhorni til ársins 2015.

Þaðan lá leiðin aftur norður á Siglufjörð, þar sem hann tók hamarinn fram aftur og vann um tíma við húsasmíðar. Eftir að hann greindist með krabbamein tók hann á ný til við skrif í Helluna og síðasta efni hans þar birtist í október sl.

Eftirlifandi eiginkona Þórhalls er Sólveig Halla Kjartansdóttir. Með fyrri eiginkonu, Hólmfríði Hjaltadóttur, átti Þórhallur börnin Ásmund og Ólöfu Örnu. Fósturbörn hans, og börn Sólveigar, eru Sigrún Þóra, Páll Sævar og Theodóra Sif. Í allt eru barnabörnin níu talsins, barnabarnabörnin tvö og eitt á leiðinni. Útför Þórhalls fer fram frá Siglufjarðarkirkju laugardaginn 1. febrúar kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert