„Ég er búin að vinna í þessum málaflokki í fimmtán ár að verða, með smá innliti í réttarvörslukerfið í millitíðinni,“ segir Berglind Ósk Birgis Filippíudóttir, talskona fagráðs fagdeildar félagsráðgjafa í barnavernd, félagsráðgjafi hjá barnavernd Mosfellsbæjar, og auk þess fyrrverandi fangavörður á Litla-Hrauni, í samtali við mbl.is sem snýst um stöðuna í meðferðarmálum barna og ungmenna landsins, málaflokki sem Berglind þekkir vel til, hefur skoðanir á og hefur flutt erindi um á opinberum vettvangi.
Allar götur síðan Berglind lauk meistaragráðu í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands árið 2010 hefur hún lifað og hrærst í heimi sem allur þorri almennings fær smjörþefinn af í gegnum umfjöllun fjölmiðla, margir kannast við gegnum vini og ættingja, en aðrir, líklega smæsti hópurinn, upplifir eða hefur upplifað á eigin skinni – þetta er heimur ungrar kynslóðar á refilstigu vímuefna, afbrota eða geðrænna vandamála – jafnvel alls þrenns.
„Ég hef kannski aldrei upplifað eins erfiða stöðu í málaflokknum og staðan er núna varðandi meðferðarmál barna,“ segir Berglind.
Berglind kveður þau samstarfsfólk hennar í Mosfellsbæ, á hinum ýmsum sviðum bæjarins, nú vinna að aðgerðaáætlun sem ekki sé af góðu sprottin, „hún er vegna gríðarlegrar fjölgunar tilkynninga til barnaverndar og sérstaklega varðandi áhættuhegðun barna sem snýr að afbrotum, áfengis- og vímuefnaneyslu. Aðgerðaáætlunin, Börnin okkar, felur í sér aukafjárveitingu upp á 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Aðgerðirnar 27 byggja á vinnustofum, fundum og samtölum við unglinga, foreldra og forráðamenn og sérfræðinga sem vinna í þjónustu við börn og ungmenni. Þær munu ná til almennra forvarna, snemmtækrar íhlutunar og styrkingar barnaverndarstarfs.
Mikilvægt er að efla snemmtækar og forvirkar aðgerðir svokallaðar, „af því að við getum ekki bara verið að slökkva elda heldur þurfum við líka að bregðast við á fyrri stigum“, segir Berglind.
Hún kveðst enn fremur hafa komið að málaflokknum gegnum fagráðið sem hún veitir forsæti, þar sitji nú stjórn sem skipuð var síðla árs 2023 og tók að stilla strengi sína saman í fyrra, meðal annars með því að halda umfangsmikinn starfsdag fyrir barnaverndarstarfsmenn í október þar sem hún segir gríðarlega þekkingu hafa verið til staðar hjá viðstöddum.
„Allt síðasta ár hefur verið snúið. Það hefur ekki verið hægt að koma börnum inn í meðferð vegna þess að meðferðarkerfið okkar hefur verið mjög laskað, meðferðarkerfið sem hið opinbera ber ábyrgð á að reka samkvæmt barnaverndarlögum. Þróunin hefur kannski verið þannig að við erum að setja börnin okkar og foreldrana þeirra í afskaplega erfiða stöðu,“ heldur Berglind áfram og skýrir mál sitt nánar.
Þarna á hún við fjölskyldur sem glíma við erfiðar aðstæður heima fyrir sökum úrræðaleysis. „Við leggjum auðvitað áherslu á ábyrgð foreldra og auðvitað er eðlilegt að gera það, allir foreldrar vilja sinna sínu uppeldishlutverki eins og þeir geta. Staðan núna er bara þannig að við erum með börn og foreldra í mjög erfiðri stöðu, foreldrar eru orðnir einhvers konar öryggisfulltrúar, meðferðar- og eftirlitsaðilar barna sinna umfram getu og það er ómanneskjulegt álag fyrir foreldra að standa undir þessu – að hafa börnin sín heima þegar þau þyrftu í raun að vera í úrræðum og undir handleiðslu fagaðila,“ segir fagráðsformaðurinn og kveður áhyggjuefni.
Langvarandi álag af þessu tagi skapi sjúklegt streituástand sem foreldrar hafi margir hverjir litla sem enga burði til að standa undir í sínu uppeldishlutverki.
Og hvað gerist? Þekkirðu dæmi þess að allt hafi hreinlega bara farið í bál og brand þegar þolinmæði og getu foreldra brestur – og hvernig er komið til móts við þá þegar þangað er komið?
„Við erum í sífelldri lausnaleit alla daga, þessi mál taka tíma og orku sem kannski skilar okkur litlu þegar engin úrræði geta tekið við börnunum. Foreldrar hafa stundum ekki getað sinnt vinnunni sinni, hafa misst tekjulind sína og sumir þurft að hverfa frá störfum eða taka sér tímabundið leyfi frá vinnu,“ svarar Berglind.
Í slíkum tilfellum sé reynt að þjónusta fólk eftir megni, hvort sem sú þjónusta felist í meiri stuðningi heima fyrir, viðtölum við foreldra eða aðgengi þeirra að öðrum fagaðilum. „En þetta eru í raun bara einhverjar plástrameðferðir sem duga skammt þegar þunginn er svona mikill og eftir brunann á Stuðlum í október og það að öðrum meðferðarheimilum hefur verið lokað vegna myglu og engin opnað í staðinn, þá er verið að reyna að sinna einhverju „akútt“ og það er aldrei gott í meðferðarlegu sjónarmiði – að redda bara einhverju,“ segir félagsráðgjafinn ákveðinn.
Tilfinningin í úrræðaleysi sé í raun sú að kerfið sé að taka súrefnisgrímuna af foreldrum og þar sé ástæða til að líta til langtímaafleiðinga þess að vera frá vinnu og í svo miklu streituástandi. „Foreldrar þurfa hreinlega að fara í endurhæfingu eftir að hafa staðið í þessum stormi,“ segir Berglind alvarleg í bragði.
En hvað þarf í rauninni? Hverjar væru leiðir til úrbóta, til að koma þessum málaflokki alla vega nánast á viðunandi stig?
„Já,“ segir Berglind hugsi og dregur seiminn. „Ríkið leggur fram framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar þegar ný ríkisstjórn tekur við hverju sinni. Það hefur legið fyrir í framkvæmdaáætlun núna allt frá árinu 2013 að byggja nýtt meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu og síðustu tvær áætlanir hafa falið í sér að þessu verki eigi að vera lokið,“ segir hún svo.
Verkinu sé þó langt í frá lokið. Árið 2018 hafi viljayfirlýsing milli ríkisins og Garðabæjar verið undirrituð, um að reisa meðferðarheimili. „Það gekk nú svo, að það var ekki einu sinni tekin fyrsta skóflustunga, eina minningin um þetta eru myndir og myndskeið af þessari undirritun í Garðabæ,“ segir Berglind og bætir því við, aðspurð, að opnun meðferðarheimilisins Blönduhlíð að Farsældartúni í Mosfellsbæ, sem undir lok síðasta árs var kölluð „sýndaropnun“ í fjölmiðlum fyrir nýafstaðnar kosningar, falli í svipaðan flokk.
Við opnunina hafi vaknað vonir um að unnt væri að byrja að innskrifa börn en heimilið hefur ekki enn opnað. Berglind hefur ekki upplýsingar um á hverju það strandar.
„Það er bagalegt fyrir fjölskyldur og börn, sem eru til dæmis að bíða eftir þessu tiltekna úrræði, að standa frammi fyrir því að lesa fréttir, sjá myndir og horfa á myndskeið af einhverri opnun og bera þá von í brjósti að nú komist börnin þeirra að, þegar svo líða margar vikur, jól og áramót, og komið er nýtt ár og ekkert barn hefur innskrifast þarna,“ segir Berglind með þunga.
Í framhaldinu nefnir hún meðferðarheimili fyrir drengi að Lækjarbakka á Suðurlandi sem lokað hafi vegna myglu síðastliðið vor. „Til stóð að opna meðferðarheimilið að nýju í Hamarskoti í Flóanum en það gekk ekki þar sem það húsnæði var heldur ekki í standi. Samt var nú líka til mynd af þeirri undirritun. Vonir standa til að meðferðarheimili fyrir drengi opni á nýjum stað, að Gunnarsholti á Suðurlandi, án þess að upplýsingar liggi fyrir um tímalínu hvað þá opnun varðar. Alls staðar myndast flöskuhálsar, sum börn er ekki hægt að innskrifa og önnur ekki hægt að útskrifa af því að það er ekki vitað hver tekur við þeim. Þetta verður mjög flókin staða,“ segir hún. Þá hafi einnig myndast biðlistar inn í einkarekin úrræði.
Samstarfið við það fólk sem sinni börnunum, hvort sem þar sé um að ræða starfsfólk á vakt á neyðarvistun Stuðla eða meðferðardeildinni þar, sé gott, „það eru allir tilbúnir að setjast niður og eiga einhverja lausnaleit með okkur. Þetta er fólk sem veður líka eld og brennistein fyrir þessi börn og í raun er ábyrgðin miklu ofar en okkar varðandi þetta, bæði varðandi fjármagn og eitthvert plan.
Samfylkingunni var svo tamt að tala um það fyrir kosningar að gera plan og liður í því er auðvitað að gera almennilegt plan fyrir þennan málaflokk, það eru ótal skýrslur sem liggja fyrir varðandi börn með flókinn og fjölþættan vanda og þær segja allar það sama – verkefnið er stórt, það þarf meira fjármagn og þjónustan þarf að vera stigskipt,“ segir þessi margreyndi barnaverndarstarfsmaður.
Hún bendir á að ný ríkisstjórn hafi lýst því yfir að hún ætli sér ekki að finna upp hjólið í ríkisrekstrinum heldur taka alls konar skýrslur, sem ritaðar hafi verið, upp úr skúffunum, vinna úr þeim tillögum og hafa til þess pólitískan kjark.
„Þá vil ég í því samhengi benda á allar þær skýrslur sem liggja fyrir um börn með flókinn og fjölþættan vanda. Þar eru allar upplýsingar og það þarf ekki að skipa fleiri starfshópa til viðbótar, það þarf ekkert annað að gera en að taka ákvarðanir. Einhverjar vísbendingar voru um að búið væri að lenda þessu, við fengum að heyra það á starfsdegi barnaverndarstarfsmanna föstudaginn 11. október frá þáverandi mennta- og barnamálaráðherra og svo sprakk ríkisstjórnin sömu helgi,“ rifjar Berglind upp. Nóg sé um vonirnar og yfirlýsingarnar en minna um efndirnar.
Þú talaðir um skelfilegt álag á foreldra – hvað með starfsmenn barnaverndar, talið þið saman um álagið á ykkur?
„Já já,“ svarar Berglind um hæl, „við erum mjög dugleg að ræða málin af því að maður vinnur svona mál aldrei einn, það væri algjörlega ómanneskjulegt. Barnaverndarstarfsmenn eru mjög samheldinn hópur. Við erum auðvitað með okkar hefðbundna vinnutíma, en í málum sem þessum stimplar þú þig ekkert alltaf út klukkan fjögur. Við erum að vinna með fólk, erum ekki á færibandi í verksmiðju og við viljum skilja við fólk með þeim hætti að það sé með belti og axlabönd, eins langt og það nær. Við höfum ákveðnar aðferðir til að verja okkur tilfinningalega, en það væri náttúrulega óeðlilegt ef þessi mál tækju ekki á þá starfsmenn sem sinna þeim,“ segir Berglind Ósk Birgis Filippíudóttir félagsráðgjafi í bili.
Hún ræðir málin áfram í næsta kafla viðtalsins.