Strætisvagn fór út af þjóðveginum á milli Hveragerðis og Selfoss síðdegis í dag. Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, segir afturenda vagnsins hafa lekið út af í hálku og krapa. Segir hann einhverja farþega hafa verið í vagninum sem var á lítilli ferð og engum hafi orðið meint af.
Segir Garðar Strætó hafa sent annan bíl til að sækja farþegana og hópbifreiðafyrirtækið, sem sér um akstur fyrir Strætó á leiðinni, ætli að sjá um að koma vagninum aftur upp á veg. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er vagninn enn úti í vegkantinum.
Mikil hálka og krapi er á veginum að sögn Garðars og fjórir eða fimm útafakstrar hafi orðið seinni partinn í dag.
Vegfarandi sem hafði samband við mbl.is segir strætisvagninn illa farinn og sennilega hafi hann rekist utan í ljósastaur. Þá segir hann að bíll sem var fyrir framan strætisvagninn hafi einnig rekist í staur og hafnað utan vegar.
Bendir vegfarandinn á að vagnstjórar séu reglulega í vandræðum á þessari leið og veltir fyrir sér hvort þeir gæti almennt ekki nægilega vel að sér. Segir hann að strætó fari út af liggur við einu sinni í mánuði á leiðinni á milli Selfoss og Reykjavíkur.