Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra veltir nú deilumáli ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara fyrir sér í kjölfar þess að hafa hitt embættismennina á sérstökum fundi sitt í hvoru lagi.
„Ég held að þjóðin öll nánast þekki undanfara og aðdraganda þessa máls sem var auðvitað til lykta leitt með ákvörðun forvera míns í embætti, Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Síðan er eftirleikur af því og ég vildi heyra sjónarmið þeirra hvors um sig.“
Þorbjörg er um margt í sérstakri stöðu hafandi starfað sem aðstoðarsaksóknari hjá embætti ríkissaksóknara á árunum 2013-2015.
„Þetta er sérstakt mál og það er rétt að ég vann hjá þessu embætti fyrir nokkrum árum síðan en það er bara eins og það er og breytir ekki ábyrgð minni í embætti.“
Segir Þorbjörg tengsl sín við embættið og embættismennina ekki valda vanhæfi og bendir á hina hliðina á vanhæfi sem sé hvort hlaupist sé undan merkjum og vikist undan erfiðum málum.