Vinnueiningar með eins konar kennitölu

Þingvallavatn. Marianne segir að undir ákveðnum kringumstæðum geti eitt stöðuvatn …
Þingvallavatn. Marianne segir að undir ákveðnum kringumstæðum geti eitt stöðuvatn tilheyrt fleiri en einu vatnshloti þó það þekkist ekki hérlendis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur sem kunnugt er ógilt leyf­is­veit­ingu Orku­stofn­unar til handa Lands­virkj­un síðan á síðasta ári til að reisa raf­orku­verið Hvamms­virkj­un.

Þá ógilti dómurinn einnig heim­ild Um­hverf­is­stofn­un­ar til þess að breyta vatns­hlot­inu Þjórsá 1. En hvað er fyrirbærið vatnshlot? Samkvæmt skilgreiningu í lögum um stjórn vatnamála er vatnshlot eining vatns, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó.

„Water body

Marianne Jensdóttir Fjeld, verkefnastjóri vatnamála, hjá Umhverfis- og orkustofnun, segir hugtakið vatnshlot beina þýðingu á enska heitinu „water body“ og sé eins og lögin gefa til kynna eining vatns en bætir því við að ákveðin aðferðafræði sé notuð við að skilgreina þá einingu eða einingar.

„Einfaldasta dæmið um vatnshlot er eitt stöðuvatn. Hluti af á getur einnig verið eitt vatnshlot eða einhver ákveðinn hluti úti í strandsjó.“

Stjórnsýslueiningar með hálfgert póstfang

Vatnshlot eru ákveðnar stjórnsýslueiningar, vinnueiningar sem sérfræðingar m.a. Umhverfis- og orkustofnunar vinna með. Hver eining fær ákveðið raðnúmer sem Marianne líkir við eins konar kennitölu og þá fær hver eining alls konar skilgreiningar og viðbótarupplýsingar eins og hvort um er að ræða stöðuvatn, straumvatn eða strandsjó o.s.frv.

„Hvert vatnshlot fær ákveðna landfræðilega skilgreiningu sem lesa má úr raðnúmeri þess. Númerin byrja öll á 100 og eitthvað, þetta er svona hálfgert póstfang. 104 er t.d. allt suðvesturhornið og 101 eru Vestfirðir og norðurhluti Snæfellsness.“

Skipt eftir berggrunni og hæð yfir sjávarmáli

Vatnshlotunum er skipt í ákveðnar gerðir og þar segir Marianne að t.d. skipti máli af hvaða berggrunni það er, t.d. hvort það sé af ungu bergi eða eldra bergi. Þá skipti máli hversu hátt yfir sjó vatnshlotin séu. Einnig sé þeim skipt upp eftir álagi.

Markmiðið er að skipta vatnshlotum upp í gerðir sem endurspeglast í því vistkerfi þeirra. Marianne segir sérfræðingar svo alltaf vinna með eitt vatnshlot sem sé í ákveðnu ástandi og hafi ákveðið umhverfismarkmið.

Ár líta öðrum lögmálum

Marianne segir að undir ákveðnum kringumstæðum geti eitt stöðuvatn tilheyrt fleiri en einu vatnshloti þó það þekkist ekki hérlendis. Fleiri en eitt stöðuvatn geti þó ekki tilheyrt einu og sama vatnshlotinu.

Hvað ár varðar segir Marianne önnur lögmál gilda enda renni þær frá A til B. Þar ráði aðrir þættir eins og ef ófiskgengir fossar eða við ármót þar sem tvær ár eru að sameinast með mismunandi eiginleika.

Segir hún alls kyns verklagsreglur í kringum málefni vatnshlota sem byggðar eru á vatnatilskipun Evrópusambandsins og sérfræðingar vinni eftir uppskriftum þaðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka