Þrír reitir til viðbótar verða rýmdir á atvinnusvæðinu á Seyðisfirði. Þetta staðfestir Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í ofanflóðahættumati á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Veðurhorfur til morguns eru óbreyttar frá því í morgun að sögn Tómasar, þegar ákveðið var að rýma nokkra reiti á Seyðisfirði og í Neskaupstað.
„Úrkoman sem spáð var í morgun er hafin og mun fara vaxandi og standa fram á morgundaginn. Það er hlýtt í þessu, hiti yfir frostmarki á láglendi en 2-4 stiga frost til fjalla.“
Tómas segist ekki eiga von á mjög löngum hraðfara flóðum þegar snjórinn er þetta hlýr og blautur í neðri hluta fjallshlíðanna.
„Þannig teljum við ekki ástæðu til að rýma meira en þetta sem ákveðið hefur verið, sem eru þessi óvörðu svæði í Neskaupstað og nokkrir staðir sem eru þekkt snjóflóðasvæði á atvinnusvæðinu á Seyðisfirði. Við erum búin að því sem við ætlum að gera fyrir nóttina.“
Segir hann sérfræðinga gera ráð fyrir að um fullnægjandi ráðstafanir sé að ræða fram á morgundaginn en fylgst verði með því hvernig veðrið þróist og hvernig snjór safnist fyrir á upptakasvæðinu.
„Þar erum við með mælitæki og getum fylgst með hvernig snjórinn hleðst upp.“
Að líkindum mun veðrið standa yfir á morgun og segir Tómas að ákafasta úrkoman verði í nótt og fram eftir morgni. Síðan verði áframhaldandi úrkoma en veðrið gangi niður og verði nokkurn veginn búið á þriðjudagsmorgun.
Bendir Tómas á að í veðri sem þessu kunni að skapast hætta á blautum flóðum úr farvegum þar sem þekkt sé að slík flóð hafi fallið, meðal annars úr þeim giljum á Seyðisfirði sem ákveðið var að rýma undir núna.
Síður á hann von á hraðfara, langskreiðum flóðum með kraftmiklum yfirfaldi af þeirri tegund sem féllu í Neskaupstað vorið 2023.