„Nóttin var tíðindalítil með tilliti til verkefna hjá björgunarsveitum og lögreglu,“ segir Jón Björn Hákonarson, verkefnastjóri almannavarna á Austurlandi, í samtali við mbl.is.
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er enn í gildi á Austfjörðum og hættustig er í Neskaupstað og á Seyðisfirði en rýma þurfti íbúðarsvæði og atvinnusvæði í bæjunum tveimur í gær.
Jón Björn segir að dregið hafi úr ofankomunni en reiknað er með að snjókomubakki gangi inn á land á Austfjörðum seinni partinn í dag.
„Það stendur yfir vinna við að ryðja þéttbýliskjarnann í Neskaupstað. Það er mikill og þungur snjór í bænum,“ segir hann og bætir við aðgerðarstjórnin verði í nánu sambandi við Veðurstofuna hvað varðar framhaldið þegar líður á daginn.
Hann segir að rýmingar í Neskaupstað og á Seyðisfirði í gær hafi gengið vel en íbúar á rýmingarsvæðunum voru um 170 talsins.
„Það eru miklar þakkir til björgunarsveita og íbúa sem tóku þessu af miklu æðruleysi,“ segir Jón Björn.
Fjöldahjálparstöðvar voru opnaðar á báðum stöðum og segir Jón Björn að enginn hafi þurft að dvelja í þeim. Hann segir að fólk hafi fengið gistingu hjá vinum og ættingjum.
„Það eru allir á tánum og við tökum stöðuna með almannavörnum og Veðurstofunni núna fyrir hádegi og sjáum hvort staðan hafi eitthvað breyst. Við höfum ekki frétt af neinum sjóflóðum í grennd við byggð en það verður skoðað nánar þegar það birtir almennilega.
Skólahald fellur niður í dag í grunnskólanum í Neskaupstað og í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað.
Á heimasíðu Nesskóla, sem er grunnskólin í Neskaupstað, kemur fram að þessi ákvörðun hafi verið tekinn með hagsmuni nemenda og starfsfólks í huga.