Engar forsendur eru fyrir því að hægja á eða seinka þeim undirbúningsframkvæmdum Hvammsvirkjunar sem þegar eru komnar af stað.
Þetta segja Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings Ytra, í tilkynningu sem þeir sendu fjölmiðlum í kvöld.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt leyfisveitingu sem Orkustofnun veitti Landsvirkjun í fyrra til þess að reisa raforkuverið Hvammsvirkjun. Þá ógilti dómurinn einnig heimild Umhverfisstofnunar til þess að breyta vatnshlotinu Þjórsá 1.
Oddvitarnir benda á engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar í árfarvegi Þjórsár í ár og því séu engar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári sem hafi áhrif á vatnshlot Þjórsár.
„Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing Ytra veittu framkvæmdaleyfi til byggingar Hvammsvirkjunar í október 2024. Framkvæmdaleyfið er í fullu gildi. Í framkvæmdaleyfinu voru ítarleg skilyrði sett fyrir framkvæmdinni. Landsvirkjun mun þurfa að uppfylla fjölmörg skilyrði sem koma fram í greinagerð sem liggur til grundvallar framkvæmdaleyfinu áður en heimild er veitt til þess að hefja framkvæmdir í árfarvegi Þjórsár og breyta vatnshlotinu. Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í árfarvegi Þjórsár á árinu 2025 og því engar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári sem hafa áhrif á vatnshlot Þjórsár,“ segir í tilkynningunni.
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hyggst leggja fram frumvörp skjótt eftir þingsetningu til þess að greiða fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun og einfalda regluverk vegna orkuöflunar.
Haraldur Þór og Eggert Valur segja nægan tíma fyrir ráðherra til að leggja frumvörpin fram. Engar forsendur séu fyrir því að hægja á eða seinka undirbúningsframkvæmdum.
„Í ljósi þess að engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á árinu 2025 í árfarvegi Þjórsár er nægur tími fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram boðaðar breytingar á lögum um vatnamál á komandi þingi og Alþingi að tryggja það að heimilt sé að byggja virkjanir sem eru samþykktar í nýtingarflokki rammaáætlunar. Engar forsendur eru fyrir því að hægja á eða seinka þeim undirbúningsframkvæmdum Hvammsvirkjunar sem eru komnar af stað og eiga að standa yfir á þessu ári.“