Fjöldi staura brotnaði og línur slitnuðu

Framkvæmdaflokkur í Berufirði.
Framkvæmdaflokkur í Berufirði. Ljósmynd/Rarik

Fjöldi rafmagnsstaura brotnaði og línur slitnuðu vegna ísingar í óveðrinu á Austurlandi. Enn er unnið að bilanaleit og viðgerðum. 

Í tilkynningu frá Rarik segir að rafmagnslausum viðskiptavinum í landsfjórðungnum fari fækkandi. Þó eru enn 39 heimili án rafmagns. 

Mestu munar um að fyrir skömmu tókst að koma rafmagni aftur á í Stöðvarfirði en þar voru 190 heimili og fyrirtæki rafmagnslaus.

Endanlegar viðgerðir á staurum og línum gætu tekið einhverja daga.

Gætu þurft að grípa til varaaflsvéla

Í tilkynningunni segir að Rarik eigi tiltækar varaaflsvélar sem verið er að undirbúa að taka í notkun. Svo kann að vera að tengja þurfi einstaka viðskiptavini við varaaflsvélar á meðan verið er að klára viðgerðir.

Vinna er komin vel í gang en þó er óvíst hversu langan tíma viðgerðirnar munu taka. Aðstæður fyrir austan hafa verið afar krefjandi.

Farið er yfir helstu staði í tilkynningunni:

Lón: Nokkur fjöldi staura brotnaði og línur slitnuðu í Lóni. Flestir viðskiptavinir hafa fengið rafmagn, m.a. með varaafli, en því miður eru enn nokkur heimili án rafmagns á þessu svæði. Verið er að undirbúa viðgerð.

Djúpivogur til Álftafjarðar: Mikil ísing sligaði línur og olli rafmagnsleysi á svæðinu. Starfmenn vinnuflokks náðu að hreinsa ísinguna af og komst rafmagn aftur á rétt eftir klukkan 13:30 í dag. Ekki er gert ráð fyrir frekari truflunum þarna að óbreyttu.

Tunga að Grænnípu: Í sunnaverðum Fáskrúðsfirði hafa línur slitnað og staurar brotnað. Búið er að koma rafmagni aftur á hluta þess svæðis sem fyrst varð rafmagnslaus en því miður eru nokkur heimili enn án rafmagns.

Berunes að Vattarnesi: Í sunnanverðum Reyðarfirði var mikil ísing. Búið er að gera við línuslit en fleiri bilanir eru á línunni og því hefur ekki tekist að koma rafmagni á aftur.

Berufjörður: Frá botni Berufjarðar og út norðanverðan fjörðinn er rafmagnslaust og þar eru 13 viðskiptavinir án rafmagns. Þar hafa staurar bæði brotnað og brunnið og lína slitnað. Viðgerð stendur yfir.

Stöðvarfjörður: Búið er að tengja jarðstreng til Stöðvarfjarðar og spennusetja hann til að hægt sé að koma rafmagni á þar innanbæjar. Línan er illa farin og fjöldi staura brotinn og því mun einhver tími líða þar til næst að koma rafmagni aftur á í dreifbýli fjarðarins. Líklega þarf að koma því á með smærri varaaflsvélum. Þarna voru 190 heimili og fyrirtæki án rafmagns en hefur nú fækkað niður í 4 og vonir standa til að hægt verði að koma rafmagni á hjá þeim innan skamms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert