Hljóp í útkall með slökkvitæki í hendi

Bíllinn skíðlogaði eftir skamma stund.
Bíllinn skíðlogaði eftir skamma stund. Ljósmynd/Aðsend

Eldur kviknaði í bíl í íbúabyggð á Seyðisfirði í nótt. Ökumaður bílsins komst frá án þess að bera skaða af. Elvar Snær Kristjánsson, varðstjóri í slökkviliði Múlaþings á Seyðisfirði, var fyrstur á vettvang enda eldurinn einungis um 50 metra frá heimili hans. Hljóp hann á vettvang með slökkvitæki í hendi.

„Þegar ég opna útidyrnar heima heyri ég bara flaut og sé reyk. Það hafði eitthvað gerst í rafbúnaði sem skýrir flautið. Ég greip slökkvitækið með mér og ég sá ekki manninn við fyrstu sýn. Þannig að ég fór að bílnum og reyndi að halda hitanum frá mér á meðan ég geng úr skugga um að enginn væri í bílnum,“ segir Elvar.

Fyrst var sagt frá á Austurfrétt

Kom í útkall á gönguskíðum 

Á sama tíma höfðu fleiri verið ræstir út úr slökkviliðinu. Færðin var þung í nótt enda mikil snjókoma. Samstarfsmaður Elvars sá sér þann kost vænstan að koma sér að slökkvistöðinni, þar sem brunabíllinn er, með því að renna sér á gönguskíðum.

Vel gekk að koma bílnum á svæðið.
Vel gekk að koma bílnum á svæðið. Ljósmynd/Aðsend

„Það gekk furðuvel að koma slökkviliðsbílnum á svæðið og fljótlega eftir það náðum við að slökkva mesta eldinn,“ segir Elvar.

Að sögn hans skíðlogaði ekki í bílnum þegar hann kom að honum, hins vegar logaði vel í honum eftir skamma stund.

„Ég notaði slökkvitækið til að ýta loganum frá mér til að komast að bílnum til að athuga hvort einhver hafi verið þar inni,“ segir Elvar.

Hann telur nærliggjandi húsum hafi ekki verið hætta búin. „Sem betur fer var logn, en það eru kannski um tíu metrar í næstu hús og ef það hefði verið vindur þá hefði hættan verið meiri,“ segir Elvar.

Heiðin lokuð og lítið má út af bregða 

Hann segir að slík atvik séu skýr áminning um það hversu mikilvæg Fjarðargöng gætu verið fyrir byggðina. Slökkviliðið er í samstarfi við Egilsstaði en Fjarðarheiðin var lokuð í nótt. 

„Á góðum degi eru þeir kannski 20-30 mínútur hingað en ef heiðin er ófær þá stöndum við bara á eigin fótum,“ segir Elvar. 

„Við erum með tækjabíl og tankbíl og í sjálfu sér ágætlega búnir, en ef stór bruni kemur þá gætum við lent í vandræðum.“ 

Vel rauk úr bílnumj eftir að mestur eldurinn hafði verið …
Vel rauk úr bílnumj eftir að mestur eldurinn hafði verið slökktur. Ljósmynd/Aðsend

Barnsburður í nótt 

Nóttin var viðburðarrík á Seyðisfirði og fæddi kona barn í bænum. 

„Það er mjög óheppilegt að slíkt gerist þegar Fjarðarheiðin er ófær. Við erum með lækna og hjúkrunarfólk í bænum, en það er vond staða að geta ekki komist neitt. Þessi fæðing gekk vel að því ég best veit en það má ekki mikið út af bregða þegar aðstæður eru svona,“ segir Elvar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert