Lögreglan var kölluð að íþróttahúsinu í Strandgötu í Hafnarfirði fyrir skömmu vegna ábendingar sem lögreglu barst um að átök væru í uppsiglingu.
Þetta staðfestir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Það var eitthvað skrýtið í uppsiglingu. Menn óttuðust það, en svo veit ég ekki hvort af því varð eða hvernig það fór,“ segir Sævar, en lögreglumenn voru nýkomnir á staðinn þegar blaðamaður náði tali af honum.
Hann staðfestir að ábending hafi komið um að það væri „eitthvað í uppsiglingu.“ Þetta sé eitthvað sem sé að gerast akkúrat núna og því hafi hann ekki upplýsingar um hvort átök hafi átt sér stað.
Lögreglan var einnig við Flensborgarskólann í Hafnarfirði þar sem fjöldi ungmenna var samankominn, samkvæmt heimildum mbl.is.
Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari Flensborgarskólans, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi verið um alvarlega uppákomu að ræða. Aðeins rifrildi á milli tveggja drengja. Hún kannast ekki við að hafa fengið upplýsingar um átök væru í uppsiglingu.
„Það hefur ekkert brotist út, eða ekkert gerst hvað það varðar,“ segir Erla.
Sjálf hélt hún að lögreglan væri komin á staðinn til að skoða einhvern bíl.
„Það eru alveg strákar hérna sem eru að takast á og rífast, en það var ekkert úr því núna að minnsta kosti,“ segir Erla.
Lögreglan hafi komið og tekið stöðuna, en stoppað mjög stutt.
„Það er allt með kyrrum kjörum eins og staðan er núna að minnsta kosti.“
Fréttin hefur verið uppfærð