„Samningaviðræður hafa gengið mjög hægt,“ segir Bjarni Ingimarsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Mikill meirihluti félagsmanna LSS samþykkti verkfallsboð í gær, eða um 88%, og verkfall er boðað 10. febrúar nk. ef samningar nást ekki fyrir þann tíma.
Sambandið skrifaði undir samning við Samband íslenskra sveitarfélaga árið 2023 með framlengingu til 1. apríl 2024 og frá 2023 hafa viðræður staðið yfir.
Öllum neyðartilvikum verður sinnt komi til verkfalls, bæði varðandi slökkvilið og sjúkraflutninga. Verkefni sem falla undir forgang 3 og 4 munu mæta afgangi, en undir það falla t.d. flutningur sjúklinga milli sjúkrastofnana, kaldavatnslekar, hreinsun eftir umferðarslys o.fl., en slík verkefni verða metin hverju sinni.
„Þetta strandar ekki á launahækkunum. Við viljum fá að semja á okkar forsendum, og taka á launamyndunarkerfinu, þannig að miklar launasveiflur minnki og við færumst að vissu leyti nær jafnaðarlaunakerfi. Við höfum unnið gífurlega mikla vinnu til að setja fram kerfi sem við teljum að væri sanngjarnt og ætti ekki að auka við kostnaðarliðinn, en það vantar framlag sveitarfélaganna, að þau vinni þau verkefni sem þarf að vinna og komi að borðinu með einhverjar lausnir. Boltinn er hjá sveitarfélögunum,“ segir Bjarni og bætir við að vonast sé til þess að verkfallsboðunin verði til þess að hleypa krafti í viðræður svo ekki komi til verkfalls, enda sé gefinn góður fyrirvari.