Dagur kveður borgarstjórn

Dagur B. Eggertsson baðst lausnar frá störfum sínum á fundi …
Dagur B. Eggertsson baðst lausnar frá störfum sínum á fundi borgarstjórnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og þingmaður Samfylkingarinnar, sat sinn síðasta borgarstjórnarfund í dag þar sem hann baðst lausnar frá störfum sínum hjá borgarstjórn þar sem hann mun taka sæti á Alþingi þegar þing kemur saman 4. febrúar næstkomandi.

Dagur hefur verið formaður borgarráðs síðastliðið ár eftir að Einar Þorsteinsson tók við sem borgarstjóri í janúar í fyrra. Fyrir það hafði hann verið ýmist borgarstjóri eða formaður borgarráðs síðustu fimmtán ár.

Dagur var fyrst kosinn inn sem borgarfulltrúi árið 2002 og hefur verið viðloðinn borgina síðan. 

„Ég er ótrúlega þakklátur fyrir þennan tíma og þakklátur því fólki sem ég hef unnið með á vettvangi borgarstjórnar og hjá Reykjavíkurborg. Þið eruð ótrúlega mörg og ég vona að þið vitið hver þið eruð,“ skrifar Dagur í færslu á Facebook í dag. 

Samfylkingarfélagið í Reykjavík birtir einnig færslu á Facebook í dag þar sem Degi er þakkað fyrir sín störf í þágu borgarbúa. 

„Það þarf ekki mörg orð um það að Reykjavík hefur tekið algerum stakkaskiptum á þessum tíma - og eflst hvert og hvar sem litið er [...]. Lengi vel voru þessar breytingar einungis hugmyndir á blaði en nú eru þær farnar að rísa upp úr jörðinni og umbreyta borginni,“ segir meðal annars í færslunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert